Silfurdrengirnir komnir heim eftir Greifamótið

Silfurdrengirnir komnir heim eftir Greifamótið

4.flokkur karla tapaði úrslitaleik Greifamóts KA naumlega, en frammistaða drengjana var til fyrirmyndar. 

Tindastóll sendi til leiks eitt lið á Greifamóti - KA um helgina. Mótið er fyrir stráka í 4.flokki en það eru srákar fæddir 1999 og 2000,  en yngri árgangurinn er að spila í fyrsta sinn á stórum velli og því mikil viðbrigði fyrir þá. Viðbrigðin kannski enn meiri hjá okkur heldur en öðrum félögum á þessu móti því flest af nágranna sveitarfélögum okkar búa við mun betri vetraraðstöðu og hafa kost á því að æfa á stórum velli allan ársins hring. En það er vonandi að svona völlur komi á Krókinn áður en eitthvað af þessum strákum flytja burtu í skóla. 

Strákarnir hafa flest allir æft vel í vetur og nýtt aðstöðuna á Króknum til hins ýtrasta. Á þessum vetri höfum við nánast aldrei frestað æfingu vegna veðurs. Völlurinn hefur verið á kafi mörgum sinnum en þeir hafa mætt með sínar eigin skóflur á æfingar og notað helmingin af æfingunni til að moka snjó af vellinum og sýnir það hve áhugi og elja þeirra er mikil. 

Æfingahópurinn í vetur hefur samanstaðið af um 25 strákum og oft snúið að koma þeim öllum fyrir á gervigrasinu við Árskóla, en með jákvæðni er flest hægt. 

Fyrsti leikur mótsins var á móti Þór frá Akureyri en sá leikur var spilaður á Föstudaginn í Boganum. Ekki var samt að sjá á fyrstu minutum leiksins að þessi stóri völlur færi eitthvað ílla í þá. Halldór Broddi vann boltann í vörninni og sólaði allt Þórsliðið og var kominn uppað vítateig þegar hann sendi Jóhann Daða Gíslason í gegn, sem kláraði vel með því að “chippa” yfir markvörðinn. 1-0 eftir 55 sekúndur og við þetta jókst sjálfstraust og kjarkur Skagfirðinganna. Strákarnir gerðu það sem þeir gerðu best þetta mót, börðust eins og ljón og héldu Þórsurum frá markinu. Það var síðan undir lok leiksins að Ísak Dagur Viktorsson bjargaði stórglæsilega á línu og skömmu seinna flautaði dómari leiksins leikinn af og flottur 1-0 sigur staðreynd í fyrsta leik. 

Eftir þetta ákváðu flestir að skutlast aftur heim á Krók, enda stutt að fara. Lagt var af stað snemma á laugardagsmorgni því leikur gegn Dalvík/KF var næstur.

Tindastóll byrjaði leikinn ekki nóg of vel, en komst hægt og bítandi inn í hann og tóku strákarnir fljótlega völdin. Fyrsta og eina mark leiksins kom eftir 13.mín leik þegar Pétur Guðbjörn Sigurðarson stórefnilegur leikmaður Tindastóls, fæddur árið 2000 tók flotta hornspyrnu þar sem Halldór Broddi Þorsteinsson réðs á boltann og kom honum inn fyrir marklínuna af miklu harðfylgni.

Eftir þetta fengum við fullt af færum en boltinn vildi ekki inn og lokatölur leiksins 1-0.

Þriðji leikur mótsins var gegn KA2 en sá leikur var vel spilaður hjá okkar strákum. Fyrsta mark leiksins kom með flottu skoti hjá Jónasi Aroni Ólafssyni en hann lét vaða vel fyrir utan teig og boltinn sveif fallega í fjærhornið. Annað mark leiksins var ekki af verri endanum, Ingi Sigþór Gunnarsson tók boltann rétt fyrir framan miðju og skaut að marki og boltinn sveif alla leið inní markið. Stórglæsilegt mark og greynilegt að pabbi hans, Gunnar Bragi hefur kennt honum eitt og annað í fótbolta. Jónas skoraði fljótlega eftir þetta sitt annað mark í leiknum og kom okkar mönnum í 3-0. Fjórða og fimmta mark leiksins skoraði síðan Reynir Freyr Hauksson frá Hofsósi en gaman er að sjá hann og aðra sem búsettir eru utan Sauðárkróks, sem leggja á sig ferðalag á Krókinn til þess að geta spilað fótbolta í fjölmennara umhverfi.

Eftir þennan leik fóru strákarnir í Keilu og skemmtu sér vel þar. 

Á sunnudagsmorgun mættu strákarnir liði Fjarðabyggðar, en aðdáunarvert er að sjá hve mikil gróska er í fótboltanum í Fjarðabyggð, því þetta 4600 manna, dreifða Sveitarfélag kom með þrjú, ellefu manna lið til leiks. En nokkur ár eru síðan þeir fengu fjölnöta íþróttahús gefins frá Alcoa Fjarðarál.

En í stuttu máli, var þessi leikur sá slappasti hjá strákunum, þeir fengu á sig sitt fyrsta mark í mótinu þegar þeir lentu undir eftir um 15 mín leik. Eftir þetta settu strákarnir aðeins meiri kraft í leikinn og var það Pétur Guðbjörn Sigurðarson sem náði að skora eina mark okkar í þessum leik, en hann gerði það á stórglæsilegan hátt þegar hann sólaði framhjá leikmönnum andstæðingana og skoraði með flottu skoti vel fyrir utan teig.  Þetta mark tryggði okkur jafntefli og þar með 10.stig í riðlunum og efsta sætið.

Úrslitaleikurinn var síðan gegn liði Hattar frá Egilsstöðum. Hattarmenn, undir stjórn Skagfirðingsins Búa Vilhjálmssonar var búið að spila gríðarlega vel á mótinu og vinna alla sína leiki frekar stórt.

Strákarnir mættu þeim, fullir sjálfstrausts þar sem Tindastóls liðið var með sterkustu vörn mótsins með Halldór Brodda Þorsteinsson í broddi fylkingar.

Strákarnir spiluðu gríðarlega agaðan leik og börðust vel, ásamt því að beita fínum skyndisóknum. Það var því grátlegt þegar Hattarmenn skoruðu eina mark leiksins þegar 40 sekúndur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. 

Annað sætið staðreynd að þessu sinni, en strákarnir geta verið gríðarlega stoltir af sínum leik á þessu móti. Þeir voru duglegir að vinna og hvetja hvorn annan áfram og skilaði það liðinu þessum árangri.

Flott ferð í alla staði og gaman að sjá strákana standa sig svona vel.

Áfram Tindastóll

___ 

Stefán Arnar , þjálfari 4.flokks karla