Domino's deildin af stað aftur - útileikur við Grindavík í kvöld

Domino's deildin heldur nú áfram eftir hátíðarnar og hefur Tindastóll nýtt ár með útileik við Íslandsmeistara Grindvíkinga í kvöld. Strákarnir ljúka svo fyrri umferðinni með frestuðum heimaleik við Skallagrím á fimmtudaginn í næstu viku.

Tindastólsliðið lauk keppni 2012 með tveimur góðum sigrum eftir að hafa leikið sjö leiki án sigurs fram að því. Þó verkefnið sé ærið að leggja Íslandsmeistarana á þeirra heimavelli, getur allt gerst eins og dæmin sanna.

Grindvíkingar hafa bætt við sig Ryan Pettinella, kjötfjalli af ítölsku bergi brotið, en hann gefur þeim gulu kraft og hæð undir körfunni.

Ekki er annað vitað en að okkar menn séu í standi og til í slaginn, framundan er barátta um að komast í úrslitakeppnina.

Leikurinn verður sýndur beint á netinu á Tindastóll TV. Stuðningsmenn ætla að venju að hittast á Mælifelli og njóta þar samveru og leiksins á breiðtjaldi. Sem fyrr renna 25% af innkomu af veitingasölu í sjóði körfuknattleiksdeildar.