Domino's deildin af stað aftur eftir bikarhlé

Tindastólsmenn heimsækja Keflvíkinga í Sláturhúsið á föstudag í Domino's deildinni sem nú fer aftur af stað eftir hlé sem var gert vegna bikarúrslitanna. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sport TV og stuðningsmenn ætla að hittast á Mælifelli.

Keflvíkingar eru að spila liða best um þessar mundir að mati margra spekinga en okkar menn hafa nú unnið tvo leiki í röð og eru komnir í harða baráttu um sæti í úrslitakeppninni.

Keflavík situr í 4. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan okkar menn eru í því 10. með 10 stig.

Leikurinn hefst á hefðbundnum tíma Suður með sjó, eða kl. 19.15 og um að gera fyrir stuðningsmenn syðra að skella sér á leik. Fyrir þá sem heima sitja verður leikurinn sýndur beint á Sport TV og ætla stuðningsmenn að hittast á Mælifelli og berja leikinn augum saman. Að venju renna 25% af veitingasölu í sjóði körfuknattleiksdeildar.

Á mánudaginn kemur, koma síðan Snæfellingar í heimsókn í deildinni. Þar verður án efa um hörkuleik að ræða eins og leikir þessara liða hafa gjarnan verið. Tindastóll vann þá í úrslitum Lengjubikarsins, en Snæfell svaraði um hæl og sló okkar menn út úr Poweradebikarnum hér á heimavelli. Það mætast því stálin stinn, það er nokkuð ljóst.