- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Nú þegar Lengjubikaræðið er runnið af okkar mönnum, eftir glæsilegan sigur, er rétt að snúa athyglinni að Domino's deildinni, en það verða einmitt Þórsarar úr Þorlákshöfn, sem Tindastóll lagði í undanúrslitum Lengjubikarsins, sem mæta í Síkið á fimmtudagskvöldið. Drengjaflokkurinn spilar síðan við sameiginlegt lið Þórs Þ/Hamars strax eftir leikinn, eða um kl. 21.15.
Tindastól á enn eftir að vinna leik í Domino's deildinni þetta tímabilið og er sem stendur í botnsætinu með stöðuna 0-6. Strákarnir sýndu það í Lengjubikarnum um helgina hvað í þá er spunnið og liðið lék alveg stórvel á báðum endum vallarins lengst af.
Þórsarar eru sterkir eins og áður og þrátt fyrir að Tindastóll hafi haft á þeim tak hingað til, er ekki á vísan að róa þegar kemur að deildinni. Þeir sitja í 4. sæti með 10 stig eftir sjö leiki.
Í liði Þórsara eru fantasterkir leikmenn. Þeir hafa stigahæsta leikmann Domino's deildarinnar innan sinna raða, en það er bakvörðurinn Benjamin Curtis Smith. Kappinn sá hefur sett rúmlega 24 stig að meðaltali í leik. David Bernard Jackson er hinn útlendingurinn í liðinu en hann tók við starfi Robert Diggs sem var látinn taka pokann sinn á dögunum. Jackson spilaði gegn Tindastóli í Lengjubikarnum á dögunum. Góðkunningi okkar Skagfirðinga, Darrel Flake, spilar með Þórsurum en hann hefur íslenskan passa upp á vasann og telst því ekki vera erlendur. Af íslensku úrvali leikmanna Þórsara má nefna þá Darra Hilmarsson, Guðmund Jónsson, Grétar Inga Erlendsson, Baldur Ragnarsson. Allt eru þetta góðir leikmenn sem kom vel í ljós í úrslitaeinvígi liðsins gegn Grindavík síðasta vor.
Það er vonandi að strákarnir nái að stilla saman strengi sína fyrir fimmtudagskvöldið og haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var í Lengjubikarnum um síðustu helgi. Það þýðir ekkert fyrir menn að vera saddir þó einn bikar sé kominn í hús, það eru fleiri bikarar í boði og áhugaverðari en Lengjubikarinn þegar öllu er á botninn hvolft og án þess að neitt lítið sé gert úr góðum árangri strákanna á þeim vettvangi.
Dómarar verða þeir Björgvin Rúnarsson, Jóhann Gudmundsson og Ísak Ernir Kristinsson og sem fyrr eru stuðningsmenn beðnir um að vanda orfæri sitt gagnvart þeim.
Leikurinn hefst á hefðbundnum tíma og verður í beinni vefútsendingu á Tindastóll TV.
Strax eftir leikinn mun drengjaflokkur Tindastóls spila gegn sameiginlegu liði Þórs Þ/Hamars og hefst leikurinn um kl. 21.15.
Það er svo rétt að geta þess að á sunnudagskvöldið koma Snæfellingar í heimsókn í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins, sem er stóra bikarkeppni KKÍ.