- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Hún verður örlagarík lokaumferðin í Domino's deildinni sem fram fer á sunnudagskvöld. Nýkrýndir deildarmeistarar, Grindavík, munu þá koma í heimsókn og etja kappi við okkar menn, sem eru í harðri baráttu fyrir tilverurétti sínum í deildinni.
Eftir grátlegt tap gegn ÍR á fimmtudagskvöldið, er staða Tindastóls einfaldlega sú að liðið getur fallið og liðið getur líka náð inn í úrslitakeppnina. Vegna slakrar stöðu í innbyrðisviðureignum gegn Fjölni, KFÍ og ÍR, dugar ekkert nema sigur gegn Grindavík, nema að þurfa að treysta alfarið á úrslit annarra leikja. ÍR er að vísu líka inni í þessum pakka, því ef við gefum okkur það að Tindastóll, ÍR og Fjölnir verði jöfn, fellur ÍR, þar sem þeir hafa aðeins einn innbyrðissigur gegn hinum tveimur, Tindastóll hefur tvo og Fjölnir þrjá.
Við á heimasíðunni ætlum ekkert einu sinni að fjalla um möguleikann á því að komast í úrslitakeppnina, því eins og staðan er, verður það bara bónus. Aðalmálið er að forða liðinu frá falli og geta strákarnir sannarlega bitið frá sér hér á heimavelli eins og við höfum svo oft fengið að sjá.
Leikirnir í lokaumferðinni eru þessir:
17-03-2013 19:15 | Snæfell | Njarðvík | |
17-03-2013 19:15 | Keflavík | ÍR | |
17-03-2013 19:15 | Tindastóll | Grindavík | |
17-03-2013 19:15 | Fjölnir | Stjarnan | |
17-03-2013 19:15 | KFÍ | KR | |
17-03-2013 19:15 | Skallagrímur | Þór Þ. |
Öll liðin sem eru í neðri hlutanum eiga heimaleiki í lokaumferðinni. Það þýðir því ekkert að treysta á að úrslit verði eftir bókinni, því þegar lið eru með bakið upp við vegg, getur allt gerst, þó spilað sé við lið sem eru mun ofar í töflunni. Troðfullur heimavöllurinn af stuðningsmönnum, sem án efa verður raunin á sunnudag, getur hjálpað liðum alveg ótrúlega mikið í stöðu sem þessari. Það þurfa okkar stuðningsmenn líka að hafa í huga, því þeir hafa sýnt það á ögurstundum hvers þeir eru megnugir og nú er þörf á að smekkfylla Síkið og styðja strákana.
Staðan í neðri hluta deildarinnar fyrir lokaumferðina er þessi:
8. | Skallagrímur | 7/14 | 14 |
9. | ÍR | 6/15 | 12 |
10. | Tindastóll | 6/15 | 12 |
11. | Fjölnir | 5/16 | 10 |
12. | KFÍ | 5/16 | 10 |
Öll fjögur neðstu liðin geta fallið og þrjú efstu geta komist í úrslitakeppnina, svo útlit er fyrir gríðarlega spennandi lokaumferð, eina þá mest spennandi í manna minnum.
Kæru stuðningsmenn, oft er þörf en nú er nauðsyn. Hittumst í Síkinu á sunnudagskvöldið og sýnum strákunum hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið að eiga lið í efstu deild!!!