06.10.2012
Loksins, loksins hefst Domino's deildin í körfubolta á morgun. Það er enginn smá leikur sem boðið verður upp á í Síkinu, nefnilega Tindastóll - Stjarnan.
Stjörnuliðið er vel mannað lið. Þeir hafa haldið leikmannakjarna sínum í nokkur ár og byggt sinn leik í kring um Justin Shouse, þann frábæra leikstjórnanda. Stjarnan hefur í sínum röðum bandarískan leikmann, Brian Mills, sem þykir hafa sýnt lofandi frammistöðu á undirbúningstímabilinu. Þá má nefna Jovan Zdravevski, Fannar Frey Helgason, Kjartan Atla Kjartansson, Marvin Valdimarsson, Dag Kár Jónsson og tvíbuarana Sigurjón og Guðjón Lárussyni. Mikil breidd og öflugt lið þarna á ferðinni.
Strákarnir okkar ætla að mæta grimmir til leiks því ef góð úrslit eiga að nást gegn Stjörnunni þurfa menn að spila eins og herforingjar á báðum endum vallarins. Allir eru heilir og staðráðnir í að gera sitt besta.
Ársmiðar verða til sölu á leiknum á morgun og kosta þeir aðeins 15 þúsund krónur. Það margborgar sig fyrir fólk að kaupa sér ársmiða og fá þannig frítt inn á alla heimaleikina í Domino's deildinni og Lengjubikarnum, auk úrslitakeppninnar sem við ætlum okkur að komast í.
Upphitun fyrir stórleikinn annað kvöld, verður leikur sömu liða í drengjaflokki kl. 16.30. Allir hvattir til að koma og sjá ungviðið okkar taka á móti sterku liði Stjörnunnar.