Domino's deildin heldur áfram

Tindastóll tekur á móti Keflvíkingum í Domino's deildinni Í KVÖLD í Síkinu. Eftir tap í þremur fyrstu leikjunum hafa þeir Suðurnesjamenn unnið tvo leiki í röð, en okkar menn eru enn án sigurs.

Það er sannarlega kominn tími á fyrsta sigurleikinn í deildinni en í Lengjubikarnum hafa strákarnir okkar verið að sína á sér sparihliðarnar og tróna á toppi síns riðils. Það er mikilvægt að ná stöðugleika í liðið fara að sýna rétt andlit í deildinni einnig. Liðið hefur oft á tíðum ekki verið að spila illa í deildinni, en skort dug til að klára leikina réttu megin.

Drew Gibson er nýr leikmaður í liði Tindastóls, en hann spilaði sinn fyrsta leik gegn Fjölni í Lengjubikarnum á sunnudaginn, þá nýkominn á klakann. Hann sýndi lofandi frammistöðu, sendi m.a. 9 stoðsendingar á 20 mínútum og skoraði 8 stig. Allir eru heilir í liðinu utan Helgi Rafn, sem meiddist á hendi í Fjölnisleiknum og bryður nú bólgueyðandi til að ná bólgu niður sem ku vera allmikil. Hann sagði í samtali við heimasíðuna að hann væri óbrotinn og ætlaði að láta á þetta reyna á fimmtudaginn. Aðspurður sagði hann um stemninguna í liðinu að hún væri góð, liðið væri að slípast saman og sér litist vel á nýja bakvörðinn. Menn væru tilbúnir í slaginn við Keflvíkinga og ætluðu sér að selja sig dýrt.

Í Keflavíkurliðinu er Michael Craion stiga- og frákastahæstur en kappinn sá hefur skorað 20.2 stig og tekið 10.4 fráköst að meðaltali í leikjum Keflavíkurliðsins. Valur Orri Valsson hefur sent flestar stoðsendingar eða 4.4 auk þess sem stráksi hefur skorað 9 stig í leik og tekið 4.6 fráköst. Darrel Keith Lewis er íslenskur ríkisborgari og lék m.a. með Grindvíkingum hér um árið við góða orðstýr. Hann er að setja 17.4 stig í leik og er gríðarlega öflugur leikmaður. Kevin Glittner er að skora 13.6 stig í leik og hefur verið skeinuhættur. Magnús Þór Gunnarsson hefur hins vegar ekki alveg fundið fjölina sína, er aðeins með 7 stig að meðaltali í leik það sem af er. En hann er sannarlega leikmaður sem þarfnast allrar athygli varnarlega, því hann hefur sett skot niður nánast frá sundlauginni þegar því er að skipta. Almar Guðbrandsson og Snorri Hrafnkelsson eru stórir og sprækir strákar sem eru með prýðisgott framlag til liðsins. Þjálfari er Sigurður Ingimundarson, sá gamli refur.

Leikurinn hefst á hefðbundnum tíma kl. 19.15. Nú þurfa allir að leggjast á eitt og hjálpa til við að landa fyrsta sigrinum í deildinni. Stuðningsmenn eru hvattir til að mæta snemma og taka sér góða stöðu því þessi leikur verður eitthvað!!

Dómarar verða þeir Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen og Einar Þór Skarphéðinsson og eru stuðningsmenn vinsamlegast beðnir um að leyfa þeim að sinna sínu starfi án meiðandi ummæla.

Stuðningsmenn sem eiga ekki heimangengt á leikinn geta nýtt sér þjónustu Tindastóll TV og hlýtt þar á ómfagra lýsingu Kára Mar af framgangi leiksins og notið liprar myndatöku Viggós Jónssonar.