- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Nú þegar jólin nálgast óðfluga fer Domino's deildin að komast í jólagírinn, en áður en jólafríið skellur á, tekur Tindastóll á mót ÍR-ingum í síðasta leik ársins í Síkinu Í KVÖLD!!.
Tindastóll nældi sér í sín fyrstu stig í Domino's deildinni í síðustu viku þegar þeir lögðu Njarðvíkinga Suður með sjó í hörkuleik. Það er vonandi að strákarnir séu nú búnir að finna sigurilm í lofti í bland við hangikjötsilm jólaaðventunnar.
ÍR-ingar sitja í 9. sæti með þrjá sigra í 9 leikjum á meðan okkar menn sitja á botninum með 2 stig í 8 leikjum. Þess má geta að frestaður leikur við Skallagrím verður ekki leikinn fyrr en á nýju ári.
ÍR-ingar eru með fínan mannskap og suma þekkja stuðningsmenn Tindastóls betur en aðra. Isaac Miles sem hóf leiktíðina í Tindastólsbúningnum réð sig til starfa hjá ÍR þegar honum var sagt upp hér á Króknum. Hann hefur spilað fjóra leiki með ÍR til þessa. Eric James Palm er þeirra stigahæstur en hann hefur sett hvorki meira né minna en um 26 stig að meðaltali í leik. Hann leiðir þessa stundina alla deildina í stigaskori svo þar er enginn aukvisi á ferð. Nemanja Sovic er áhugamönnum að góðu kunnur, mikill og fjölhæfur skorari. Hann er fákastahæstur ÍR-inga með 7.7 fráköst í leik. Þá má ekki gleyma Hreggviði Magnússyni sem snéri heim í Breiðholtið fyrir keppnistímabilið. Hreggi hefur verið að setja 13.8 stig í leik og er ávallt mjög traustur. Aðrir athyglisverðir leikmenn eru Sveinbjörn Claessen sem nýkominn er á lappirnar aftur eftir hnémeðisli og Hjalti Friðriksson hefur verið að byrja inn á hjá þeim.
Leikurinn hefst á hinum klassíska tíma 19.15. Bein útsending verður frá leiknum á Tindastóll TV þar sem þeir Kári Mar og Viggó Jóns sjóða saman skemmtilega útsendingu sem margrómaðar eru langt út fyrir landsteinana.
Dómarar verða þeir Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Bender og Hákon Hjartarson. Áhorfendur eru minntir á að almennt velsæmi í munnsöfnuði er ávallt happadrýgst og skilar sér best í stuðningi við strákana á vellinum.