ÍSLENSK KNATTSPYRNA 2012

Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út bókina Íslensk knattspyrna 2012 eftir Víði Sigurðsson en þetta er 32. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út. Bókin er 256 blaðsíður og þar af 112 síður í lit.

Hún er prýdd um 370 myndum, m.a. liðsmyndum af sigurvegurum í öllum flokkum á Íslandsmótinu.

Fjallað er ítarlega um Íslandsmótið 2012 í öllum deildum og flokkum. Mest um efstu deildir karla og kvenna en einnig um neðri deildirnar og yngri flokkana. Bikarkeppni karla og kvenna er gerð ítarleg skil, sem og landsleikjum Íslands í öllum aldursflokkum og Evrópuleikjum íslensku liðanna.

Þá er fjallað um íslenska atvinnumenn erlendis, önnur mót innanlands og margt fleira sem tengist íslenskum fótbolta á árinu 2012.

Í bókinni er m.a. opinberað hvaða leikmenn áttu flestar stoðsendingar í efstu deildum karla og kvenna á árinu en viðkomandi leikmenn voru verðlaunaðir af bókaútgáfunni Tindi við útkomu bókarinnar. Ítarleg viðtöl eru við Frey Bjarnason, lykilmann í Íslandsmeistaraliði FH sem hefur leikið með liðinu frá því það vann 1. deildina um síðustu aldamót, og Örnu Sif Ásgrímsdóttur fyrirliða Íslandsmeistara Þórs/KA.

Fjallað er um ævintýri Víkinga frá Ólafsvík sem leika í fyrsta skipti í efstu deild 2013. Þá eru greinar um karla- og kvennalandsliðin og frammistöðu þeirra á árinu, og yfirlitsgreinar um hverja deild fyrir sig og frammistöðu liðanna. Fjallað er um leikjahæstu knattspyrnumenn Íslands frá upphafi, leikjahæstu og markahæstu leikmenn í öllum deildum á Íslandsmótinu, og fjölmargt fleira.

Þá er í bókinni afar nákvæm tölfræði um alla leikmenn í efstu deildum karla og kvenna, liðsskipanir allra liða í öllum deildum meistaraflokks koma fram ásamt leikja- og markafjölda, öll úrslit og lokastöður í öllum yngri flokkum á Íslandsmótinu.