Glæsilegur árangur Ísaks Óla á NM í fjölþrautum

Ísak Óli, Tuomas og Nicklas á palli.   (Mynd FRÍ).
Ísak Óli, Tuomas og Nicklas á palli. (Mynd FRÍ).

 

Ísak Óli Traustason UMSS vann til silfurverðlauna í tugþraut, í flokki 20-22 ára, á Norðurlandamóti ungmenna í fjölþrautum, sem fram fór í Kuortane í Finnlandi helgina 10.-11. júní, hann hlaut 6397 stig. Sigurvegari í þrautinni var Tuomas Valle frá Finnlandi með 6441 stig og Nicklas Karlsson frá Svíþjóð varð í 3. sæti með 6294. Tristan Frey Jónssyni ÍR, sem hafði forystu eftir fyrri dag, mistókst í stangarstökkinu og hætti þar með keppni.

Ísak Óli bætti sinn fyrri árangur í tugþraut um 526 stig.  Glæsilegur árangur.  Til hamingju Ísak Óli ! 

Árangur hans í einstökum greinum: 100m hlaup 11,25sek, langstökk 6,67m, kúluvarp 11,03m, hástökk 1,79m, 400m hlaup 51,88sek (pm), 110m grindahlaup 15,44sek, kringlukast 32,04m, stangarstökk 3,82m (pm), spjótkast 43,40m og 1500m hlaup 4:53,85mín (pm).

Af öðrum keppendum Íslands er það helst að frétta, að Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki varð í 2. sæti í sjöþraut stúlkna 18-19 ára, hlaut 5127 stig, bætti sig um 373 stig, og náði lágmarki fyrir EM U20.