- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Í Laugardalshöll helgina 11-12. janúar fóru fram meistaramót Íslands í fjölþrautum og eldri flokkum og átti UMSS alls þrjá keppendur þar.
Berglind Rós Bjarnadóttir keppti í þremur greinum á MÍ eldri flokka og sigraði í 50-54 ára aldursflokki í þeim öllum. Berglind náði fimmta besta afreki konu á mótinu með 60m hlaupi á 9,82 sekúndum en hún keppti einnig í hástökki (115cm) og kúluvarpi (10,09m). Berglind keppti með landsliði Íslands á Evrópubikar og Smáþjóðaleikum í kúluvarpi árin 1994 og 1997.
Halldór Stefánsson tók þátt í sjöþraut pilta 16-17 ára. Halldór hljóp 60m á 8,18 sekúndum, stökk 5,17m í langstökki, varpaði kúlu 8,53m, fór yfir 158 cm í hástökki. Á síðari degi mótsins hljóp Halldór 60m grindahlaup á 9,86 sekúndum sem var hans stigahæsta grein í þrautinni. Í stangarstökki náði Halldór 2,40m og hljóp loks 1000m á 3:19,64. Halldór uppskar fimmta sæti í keppninni með 3.027 stig.
Í sjöþraut karla voru skráðir þrír keppendur og allt Norðlendingar, þeir Ísak Óli Traustason úr UMSS, Birnir Vagn Finnsson úr UFA og Gunnar Eyjólfsson Akureyringur úr FH. Ísak Óli átti harma að hefna frá því í fyrra þar sem hann hafnaði í öðru sæti á eftir Blikanum Þorleifi Leifssyni en Ísak varð Íslandsmeistari í sjöþraut árin 2019-2023.
Keppnistímabilið innanhúss hefst seint í desember og stendur fram í mars. MÍ í fjölþraut innanhúss hefur oftast farið fram í febrúar en þegar það er haldið fyrr er ólíklegt að þrautarmenn nái að keppa mikið í stökum greinum til að fínstilla þær fyrir þrautina.
Fyrir fyrstu grein, 60m hlaup, var ljóst að FHingurinn Gunnar Eyjólfsson tæki ekki þátt í mótinu og var því um einvígi milli Ísaks Óla og Birnis Vagns að ræða. Ísak sigraði 60 metra hlaupið örugglega á 7,16 sekúndum sem gaf 858 stig en Birnir hljóp á 7,30 og fékk 779 stig. Gott fyrsta keppnishlaup tímabils hjá Ísaki sem keppti síðast fyrir tæpu ári síðan á sama móti. Í langstökki stökk Ísak Óli 6,56m (711 stig) sem er talsvert frá hans besta en þó lengra en lengsta stökk hans í fyrra. Birnir saxaði á forskot Ísaks í þrautinni með 6,68m stökki (739 stig).
Mikill munur er á keppendunum tveimur þegar kemur að kúluvarpsgetu enda fór kúlan þremur metrum lengra hjá Ísaki (13,74m og 712 stig) en Birni (10,71m og 528 stig). Síðasta grein fyrri dags er hástökk, þar sem Ísak stökk 176cm (593 stig). Ísak nær oftast að stökkva yfir 180cm og á best 185cm. Birnir stökk hins vegar 188cm (696 stig). Staðan eftir fyrri daginn var 2.874 stig hjá Ísaki gegn 2.742 stigum Birnis.
Seinni dagur sjöþrautar byrjar á 60m grindahlaupi. Grindin er sterkasta grein Ísaks Óla sem að þessu sinni kom í mark á 8,51 sekúndum (858 stig), vel á undan Birni sem var á 9,00 (746 stig). Í hlaupinu fann Ísak fyrir stífleika sem safnast hafði upp á fyrri degi.
Í næst síðustu greininni, stangarstökki, náði Birnir að stökkva 3,80m (562 stig) og ráin því hækkuð í 3,90m. Ísak Óli var í vandræðum með að ná nægum hraða í atrennunni til að láta áhaldið vinna sína vinnu og felldi þessa byrjunarhæð sína þrívegis. Birnir reyndi við fjóra metra og felldi þrisvar en var þó eftir stöngina kominn í rúmlega 300 stiga forystu í þrautinni.
1000m hlaup er síðasta greinin. Ísak hætti í hlaupinu en Birnir joggaði í mark á 3:44,78 (293 stig) og var því Íslandsmeistari með 4.343 stig. Ísak varð í öðru sæti með 3.700 stig en hann á best 5.355 stig sem er sjötta besta afrek Íslendings í greininni. Íslandsmetið á Jón Arnar Magnússon úr UMSS 6.293 stig.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér, eldri aldursflokkar og fjölþraut
Höfundur greinar. Þorkell Stefánsson