- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Snæfell mættust í Síkinu í kvöld í 18. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta. Hólmarar urðu að láta það duga að mæta til leiks með sjö menn og þar af var einn þeirra aðstoðarþjálfari liðsins. Það varð því snemma ljóst að það yrði brekka í þessu fyrir gestina og ekki var það til að hjálpa þeim að Lewis og Dempsey voru óstöðvandi í liði Stólanna. Lokatölur eftir ansi skemmtilegan leik voru 114-85 fyrir Tindastól.
Austin Magnus Bracey (33 stig) og Sherrod Wright (24 stig og 19 fráköst) voru magnaðir í liði Snæfells í kvöld og þeir fóru vel af stað. Gestirnir höfðu frumkvæðið framan af en hálfgert slen var ríkjandi í liði Tindastóls sem léku án Svabba og Flake í kvöld. Það var reyndar ekkert slen yfir Darrel Lewis, sem varð reyndar fertugur þann 13. febrúar síðastliðinn, því hann gerði 15 stig í fyrsta leikhluta en hefði kannski að ósekju mátt nota samherjana betur. Gurley var aftur á móti alveg úti á þekju, endaði leikinn án þess að ná að skora, þannig að Dempsey kom inn eftir fimm mínútur. Hann lét fljótlega til sín taka og Stólarnir hrukku í gírinn. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 28-24 og lekurinn var í járnum fram undir miðjan annan leikhluta en þá skellti Helgi Margeirs í tvo langdræga og í kjölfarið hófst Sirkus Myron Dempsey. Þvílíkur skemmtikraftur sem þessi drengur er! Á næstu mínútu tróð hann tvisvar með tilþrifum og skellti í eitt alley-oop. Staðan í hálfleik 56-37.
Eftir frábæran fyrsta leikhluta var Lewis gjörsamlega fyrirmunað að skora í öðrum leikhluta en hann stillti miðið í hálfleik og hóf síðari hálfleik á því að skora tvær körfur. Pétur kom Stólunum í 75-50 um miðjan þriðja leikhluta en Tindastólsmenn duttu niður á eitthvað æfingaplan undir lok leikhlutans og staðan 81-66 fyrir lokaátökin. Helgi Viggós var síðan drjúgur í upphafi fjórða leikhluta og raðaði niður körfum. Lewis og Dempsey héldu uppteknum hætti og Dempsey breytti stöðunni í 100-70 með þristi og gestirnir löngu sigraðir.
Það var augljóst að Hólmarar voru aldrei líklegir til að spila glimrandi varnarleik í kvöld með sinn fámenna hóp. Þeir máttu ekki við því að safna villum og því var vörnin á stundum opin upp á gátt. Þetta nýtti Lewis sér vel en hann endaði leikinn með 35 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar. Nýtingin hans var góð – nema af vítalínunni þar sem hann var með eitt af fimm. Raunar fengu Stólarnir aðeins sjö vítaskot í leiknum sem er að sjálfsögðu lýsandi fyrir varnarleik – eða varnarleysi – Snæfellinga. Ekki var nýtingin hjá Dempsey verri en hann var með 34 stig í leiknum en spilaði aðeins í tæpar 25 mínútur. Hann er reyndar skráður með tvö fráköst og einn stolinn bolta en það er nú eitthvað undarlegt við þá tölfræði. Allir leikmenn á skýrslu hjá Stólunum, nema Svabbi Birgis, fengu að spreyta sig og fóru Helgi Viggós, Helgi Margeirs og Pétur allir yfir 10 stigin í leiknum.
Sigurinn í kvöld var góður og má segja að með honum sé sæti í úrslitakeppninni gulltryggt. Það verður örugglega þungur róður að næla í eitt af fjórum efstu sætum deildarinnar til að tryggja heimaleikjarétt í úrslitakeppninni en þó ekki ómögulegt. Nú eru fjórar umferðir eftir og eiga Tindastólsmenn eftir heimaleiki gegn KR og Grindavík og útileiki gegn Keflvíkingum og FSu. Það stefnir hinsvegar í spennandi úrslitakeppni því ekki er annað að sjá en allir geti unnnið alla í deildinni um þessar mundir og því ekkert gefið fyrirfram.
Stig Tindastóls: Lewis 35, Dempsey 34, Helgi Viggós 15, Helgi Margeirs 12, Pétur 12, Finnbogi 2, Hannes 2 og Viðar 2.