Tindastóll féll úr Domino's deildinni í körfubolta í gærkvöldi eftir tap gegn deildarmeisturum Grindvíkinga 91-97. Á sama tíma lagði KFÍ lið KR-inga á Ísafirði og það dugði fyrir þá vestfirsku til að halda sér uppi á kostnað Tindastóls.
Það var síður en svo auðveld staða að þurfa að sigra sjálfa deildarmeistarana til að halda sér uppi. Strákarnir reyndu þó hvað þeir gátu, börðust vel og voru nálægt því nokkrum sinnum að ná forystu í leiknum. Með betri vítanýtingu hefði það verið hægt, en liðið klikkaði á samtals 12 vítaskotum af 24 og er það óviðunandi nýting.
Hátt tempó var í fyrsta leikhlutanum og mikið skorað. Gestirnir leiddu 29-32 og hittni liðanna með miklum ágætum. Grindvíkingar sigu svo fram úr í öðrum leikhluta og staðan í hálfleik 46-53. Í seinni hálfleik náðu Grindvíkingar að rykkja sér nokkrum sinnum fram úr svo nam 6-9 stigum, en ávallt náðu Stólarnir að krafla sig inn í leikinn aftur. Staðan við upphaf fjórða leikhlutans var 68-75 fyrir gestina en Tindastóll minnkaði muninn í 87-90 þegar skammt var eftir, en gáfu eftir í lokin og Grindavíkursigur staðreynd 91-97.
Tölfræði leiksins.Með sigri KFÍ á KR vestra, var ljóst að liðið okkar var fallið í 1. deild. Vissulega svekkjandi staða, en það má alltaf sjá tækifæri í þeirri stöðu sem kemur upp hverju sinni. Framundan er uppbygging hjá Tindastóli á nýjum meistaraflokki og víst að efniviðurinn er nægur. Því fer fjarri að tímabilið hafi ráðist á þessum eina leik. Það þarf að líta á heildarmyndina til að sjá það. M.a. þá staðreynd að liðið tapaði fyrstu sjö leikjum sínum í deildinni. Það er eitthvað sem forráðamenn liðsins þurfa að skoða. Þrátt fyrir fallið kom einn af þeim fjórum titlum sem í boði eru í hlut Tindastóls, þegar strákarnir unnu Lengjubikarinn fyrir áramótin.