08.02.2013
Sannkallaður fjögurra stiga leikur var háður í Skagafirðinum í kvöld
þegar úrvalslið Grafarvogs mætti í heimsókn í Síkið á Sauðárkróki. Fyrir
leikinn var Tindastóll á botni deildarinnar með sex stig en Fjölnir
ekki langt á undan með átta stig. Húfið var því mikið í kvöld og þá
sérstaklega fyrir Tindastólsstrákana sem máttu algjörlega engan veginn
við því að tapa þessum leik.
Ýmislegt var búið að ganga á fyrir
leikinn hjá báðum liðum. Frá Fjölni bárust þau tíðindi um daginn að Árni
Ragnars væri meiddur út tímabilið, ansi slæmi tíðindi fyrir
Fjölnismenn. Hjá Tindastólsmönnum var það að frétta að Robert Sallie var
sendur heim til sín en Sallie þessi var nú svo sem ekki búinn að vera
lengi í bænum.
Leikurinn var í kvöld var alveg ofboðslega
þrælspennandi og frábær skemmtun. Strax í byrjun var stúkan á
Sauðárkróki farin að veðja á að þessi leikur myndi ráðast á lokaskoti
enda var leikurinn þó nokkuð jafn alveg frá upphitun þangað til klukkan
sló níu. Í fyrri hálfleik voru Tindastólsmenn þó með eilítil undirtök.
Skagfirska sóknin var hraðari og þá sérstaklega í öðrum leikhluta þegar
Pétur Birgis Rafnssonar tók að sér að stjórna leiknum fyrir heimamenn.
Tómas Tómasson og Ingvaldur Magni sáu samt til þess að Fjölnismenn
héldust inn í leiknum og því munaði ekkert alltof mikið á
liðunum í hálfleik.
Í seinni hálfleik setti Hjalti Þór þjálfari
Fjölnismanna upp skemmtilegt afbrigði af síbreytilegri svæðisvörn sem
virkaði ákaflega vel og Fjölnismenn tóku við bílstjórasætinu á leiknum.
Tindastólsmenn áttu í miklum erfðileikum með að finna lausnir á vörn
Fjölnismanna lengi vel fram eftir seinni hálfleiknum og þá var
sóknarleikur Fjölnismanna að flæða mun betur með Tómas Tómasson og
Arnþór Guðmundsson fremsta í flokki. Tindastóll var þó ekkert alltof
langt á eftir og þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir var sjö stiga
munur fyrir Fjölni. Með mjög miklum herkjum og alveg óþolandi spennu
náðu Tindastólsstrákarnir að jafna og koma sér í þá stöðu að vera með
boltann þegar leikurinn var jafn og 20 sekúndur voru eftir. Lokasóknin
var svona: Leikstjórnandi Stólanna, Drew Gibson hélt boltanum í 15
sekúndur, fór af stað, tók til sín tvo leikmenn og lagði hann þá á Hrein
sem fékk opið skot fyrir sigurinn.... Skviss... og þess vegna er
körfubolti fallegasta íþrótt í heimi.
Fjölnisstrákarnir voru að
spila ágætlega í kvöld, sérstaklega í seinni hálfleik, og þá
sérstaklega Tómas, Arnþór og Magni. Isaac Miles sem var að spila með
þriðja liðinu í Síkinu á þessum vetri, átti ekkert sérstakan leik og þá
var Christopher Smith undir í baráttunni við Valentine og Helga Rafn við
körfuna. Hjá Stólunum áttu Helgi Rafn og Helgi Freyr fínan leik,
Valentine og Gibson skítsæmilegan og Pétur Bigga Rafns mjög fínan.
Virkilega ferskur leikmaður hann Pétur en hann fékk þrusu gott tækifæri
til að troða boltanum í fyrri hálfleik sem hann klikkar alveg örugglega
ekki aftur á. Hetja dagsins var samt hrúturinn Hreinn. Átti þrælfínan
leik heilt yfir og síðan þegar á reyndi þá var hann alltaf allan daginn
að fara hitta úr lokaskotinu. En frábær skemmtun í Skagafirðinum í
kvöld, Fjölnismenn fögnuðu fyrr í vetur með ótrúlegri flautukörfu en
núna voru það Stólarnir sem fá að sofa fallega í kvöld og spennan í
deildinni er að fara á yfirsnúning.