Frábær sigur Stólanna í skemmtilegum leik

Karlalið Njarðvíkinga heimsótti Síkið í gærkvöldi og spiluðu við lið Tindastóls í fjórðu umferð Dominos-deildarinnar. Leikurinn var fjörugur og hraður en í þriðja leikhluta spiluðu Stólarnir glimrandi vel og skildu gestina eftir og unnu að lokum bísna öruggan sigur, lokatölur 86-75.

Það voru Njarðvíkingar sem fóru betur af stað og komust í 4-14 en urðu fyrir áfalli þegar Hjörtur Einarsson meiddist á öxl snemma leiks og kom ekki meira við sögu. Stólarnir minnkuðu muninn en Logi Gunnarsson kom gestunum í 10-19 með 3ja stiga körfu en Njarðvíkingar voru með ljómandi fína nýtingu utan 3ja stiga línunnar í gær. Lewis og Flake enduðu leikhlutann sterkt fyrir Tindastól og staðan 22-22. Mikil barátta var í öðrum leikhluta og skerptu bæði lið á varnarleik sínum. Njarðvíkingar komust í 22-29 en 10 stig í röð frá Helga Viggós komu Stólunum í forystu, 32-31. Næstu mínúturnar var allt í járnum en Flake kláraði hálfleikinn með nettu 3ja stiga skoti og Stólarnir yfir í hálfleik, 41-37.

Í þriðja leikhluta komu Tindastólsmenn alveg dýrvitlausir til leiks, keyrðu upp hraðann og spiluðu frábæra vörn þannig að Njarðvíkingar vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara. Uppspil gestanna var í rúst og fór Pétur Birgis illa með leikstjórnanda þeirra. Stóri maðurinn, Dempsey, sem hafði verið slakur í fyrri hálfleik, skoraði nú körfur í öllum regnbogans litum og setti síðan niður þrist til að kóróna eina góða sjö stiga mínútu hjá sér. Staðan orðin 59-44 og að þriða leikhluta loknum 72-53. Líkt og á móti Þórsurum á dögunum reyndu Tindastólsmenn að hægja á leiknum í fjórða leikhluta og spila lengri sóknir. Enn á ný riðlaðist leikur liðsins við þetta og hver sóknin af annarri endaði með erfiðu skoti í þann mund sem skottíminn rann út. Njarðvíkingar voru hins vegar haldnir of miklum doða til að nýta sér þetta almennilega en smá saman söxuðu þeir á forskot Tindastóls. Þegar fimm mínútur voru eftir var munurinn kominn í 10 stig, 76-66, og gestirnir farnir að eygja von um endurkomu en þá setti Martin þá Lewis og Helga Margeirs inn á til að rétta skútuna af. Lewis og Flake settu síðustu stig Stólanna og breyttu stöðunni í 86-68 og gátu Stólarnir spilað í lokin á ungu mönnunum. Dustin Salisbery gerði sjö síðustu stig leiksins fyrir gestina og lokatölur sem fyrr segir 86-75.

Sem fyrr segir var leikurinn skemmtilegur. Stólarnir voru miklu sterkari en gestirnir innan teigs og gerðu þar 34 (68 stig) körfur en Njarðvíkingar aðeins 12 (24 stig). Utan 3ja stiga línunnar voru gestirnir hinsvegar sjóðheitir og gerðu meira en helming stiga sinna þaðan eða 39 stig, nýting þeirra var 50% (13/26). Stólunum gekk hins vegar illa í sveitaskotunum, settu aðeins niður 5 í 24 tilraunum. Og á vítalínunni voru menn að slugsa líkt og á móti KR á dögunum, nýtingin 38% á meðan Njarðvíkingar voru með 80% nýtingu. Darrel Flake var klár í slaginn á ný eftir u.þ.b. mánuð utan vallar vegna meiðsla og var alveg banhungraður. Martin rúllaði mannskapnum vel og komu allir við sögu nema hinn síungi Svavar Birgis. Stigahæstur var Lewis með 23 stig og hann hirti einnig átta fráköst. Helgi Rafn setti 18 og Flake 17.

Stig Tindastóls: Lewis 23, Helgi Viggós 18, Flake 17, Dempsey 14, Ingvi 7, Pétur 5 og Viðar 2.