- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Eins og áður hefur komið fram sigraði 8.flokkur kvenna í B-riðli íslandsmótsins. Meðfylgjandi er smá fréttaskot frá Hjalta Árnasyni sem var fréttaritari okkar á leiknum.
Snemma á sunnudagsmorgni 13. október sl. lögðu stelpurnar í 8. flokki Tindastóls í körfubolta af stað til Stykkishólms til að etja kappi við jafnöldrur sínar í Fjölni, ÍR og Snæfelli.
Ferðin gekk ágætlega þrátt fyrir smávægilega bílveiki og við vorum kominn í Hólminn rétt rúmum hálftíma fyrir fyrsta leik gegn Fjölnisstelpum. Eftir erfiða byrjun í þeim leik náðu stelpurnar ágætri forystu og leiddu í hálfleik. Með mikilli baráttu náðu Fjölnisstelpur að knýja fram framlengingu og var gríðarleg spenna í húsinu. Bæði lið áttu erfitt með að finna körfuna í framlengingunni en þegar rétt um 6 sekúndur voru eftir tók Berglind Ósk Skaptadóttir til sinna ráða og setti niður þrist nánast frá miðjum velli með stórkostlegu skoti! Fjölnir náði ekki að svara þessu og sætur sigur var í höfn.
Næsti leikur var gegn ÍR stelpum og þrátt fyrir að byrjunin hafi verið erfið eins og í fyrsta leiknum þá voru Tindastólsstelpurnar töluvert öflugri. Þær sigu síðan framúr í 2. fjórðung og létu forystuna aldrei af hendi. Öruggur sigur 33-18 og góð stemning í hópnum.
Síðasti leikurinn var gegn gestgjöfunum og voru þær vel studdar, enda á heimavelli. Stelpurnar okkar létu það þó ekkert á sig fá, sigu hægt en örugglega framúr heimastelpum og voru komnar með 12 stiga forystu í síðari hálfleik. Snæfell náði þó að éta þann mun nánast upp með mikilli baráttu en Tindastólsstelpurnar lönduðu sigri að lokum með 32 stigum gegn 23 stigum heimamanna.
Fullt hús stiga og þetta þýðir að stelpurnar okkar munu leika næst í A-riðli. Það var því þreyttur en ánægður hópur sem hélt heim á leið.