- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll
tók á móti Leikni á Sauðárkróksvelli en þetta var fyrsti leikur seinni
umferðar. Fyrri viðureign þessara liða
endaði með 1 – 1 jafntefli á gervigrasvellinum í Breiðholtinu.
Aðstæður
voru ljómandi góðar á Króknum til að leika fótbolta, andvari, þurrt og fínn
hiti.
Leikurinn
byrjaði kröftuglega og það var ljóst að bæði liðin ætluðu að sækja þrjú
stig. Fyrsta mark leiksins kom strax
eftir 4 mínútur þegar Sebastian Furness markvörður Tindastóls náði ekki að
hreinsa boltann frá marki. Boltinn
hafnaði hjá Kristján Páli sem setti boltann í fjærhornið. Þetta var fyrsti leikur hans að nýju með
Leiknismönnum eftir stutta dvöl hjá Fylki.
Tindastólsmenn
voru fljótir að svara þegar Atli Arnarson setti boltann fyrir eftir góða
hornspyrnu þar sem þeir félagar Björn Anton og Edvard Börkur í sameiningu settu
boltann í netið. Báðir leikmennirnir
lágu óvígir eftir, sauma þurfti spor í
höfuðið á Birni Antoni og Edvard Börkur var fluttur upp á sjúkrahús til
aðhlynningar.
Liðin
skiptust á að sækja og mörg marktækifæri litu dagsins ljós. Atli Arnarson, leikmaður Tindastóls átti gott
skot í þverslána en á 36. mínútu fékk Ólafur Hrannar boltann inn í teig og
setti hann örugglega fram hjá Sebastian í marki Tindastóls og kom gestunum yfir
1 – 2.
Aftur voru
Tindastólsmenn fljótir að svara fyrir sig og það mark kom eftir gott spil
þeirra. Það var vinstri bakvörðurinn
Ingvi Hrannar Ómarsson sem kláraði sóknina vel og setti boltann í markið hjá
Leiknismönnum og staðan orðin 2 - 2.
Þannig var staðan þegar dómari leiksins Sigurður Óli Þórleifsson
flautaði til hálfleiks.
Tindastólsmenn
mættu mun ákveðnari í seinni hálfleik og áttu mörg hættuleg færi. Elvar Páll skoraði gott skallamark sem var
dæmt af á einhvern óskiljanlegan hátt þegar markvörður Leiknismanna, Eyjólfur
Tómasson stökk á Elvar en fékk dæmda aukaspyrnu
á Elvar Pál. Elvar Páll var ekki sáttur
við þetta sem og allir Tindastólsmenn og stuttu síðar afgreiddi hann boltann í
mark Leiknismanna eftir að hafa fengið góða sendingu í gegnum vörn þeirra. Staðan orðin 3 – 2 fyrir heimamenn. Síðasta hálftímann voru Leiknismenn meira með
boltann en Tindastóll varðist vel.
Það var
síðan á 88. mínútu að Tindastóll vann boltann framalega á vellinum og Chris
Tsonis setti boltann í stöngina og í netið.
Staðan orðin vænleg 4 – 2 fyrir Tindastól.
Vítaspyrna
var síðan dæmd á leikmann Tindastóls á 90. mínútu og úr henni skoraði Hilmar
Árni. Eftir þetta héldu Tindastólsmenn
boltanum vel og lönduðu góðum sigri og þremur stigum.
Tindastóll
er nú kominn með 14 stig en Leiknismenn eru áfram með 16 stig.