- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Haukar og Tindastóll mættust þriðja sinni á Ásvöllum í gær í einvígi liðanna um sæti í úrslitum Dominos-deildarinnar. Leikurinn var nokkuð sveiflukenndur en æsispennandi fram á lokamínútur þegar heimamenn í Hafnarfirði skriðu framúr Stólunum. Lokatölur voru 89-81 og Haukar því aftur komnir með yfirhöndina í rimmunni.
Þau tíðindi gerðust fyrir leikinn að Anthony Gurley yfirgaf herbúðir Stólanna en hann hefur verið ansi brokkgengur í leikjum liðsins að undanförnu. Við þetta má að sjálfsögðu segja að breiddin í liði Stólanna sé ekki sú sama og áður en þá er bara að þjappa sér betur saman og berjast sem aldrei fyrr. Það var enginn skjálfti í Stólunum í byrjun leiks og þeir höfðu frumkvæðið framan af. Viðar, Lewis, Dempsey og Pétur skelltu allir í sinn hvorn þristinn í fyrsta leikhluta en sömuleiðis var Emil Barja sjóðheitur hjá heimamönnum. Hann kláraði fyrsta leikhluta með þristi á valhoppinu og kom sínum mönnum í 26-23.
Í öðrum leikhluta hættu skotin að falla hjá Stólunum og liðið gerði aðeins átta stig fram að hléi og kann það sjaldnast góðri lukku að stýra. Haukarnir gengu enda á lagið og aftur kláruðu þeir leikhlutann með skrautþristi, nú frá Kára Jóns sem var rétt kominn fram yfir miðju þegar hann skaut rétt áður en flautan gall. Staðan 44-31 í hálfleik og brekkan virtist því ansi brött í þessu varnareinvígi liðanna.
Tindastólsmenn náðu hinsvegar upp fantagóðum leik í þriðja leikhluta og skoruðu í honum 28 stig. Það tók Stólana tæpar þrjár mínútur að minnka muninn í fjögur stig, 45-41, en Kári setti þá þrist og jók muninn á ný. Smá saman komu Stólarnir þó til baka og Dempsey jafnaði leikinn 53-53 þegar þrjár mínútur lifðu af leikhlutanum. Næstu mínútur skiptust liðin á um að hafa forystuna og Helgi Margeirs jafnaði leikinn 59-59 með klikkuðum þristi úr vinstra horninu rétt áður en leikhlutinn kláraðist.
Lið Tindastóls fór vel af stað í fjórða leikhluta. Helgi setti fljótlega annan þrist og kom Stólunum fimm stigum yfir. Dempsey átti góðan kafla á meðan Mobley var hvíldur hjá Haukunum og hann kom gestunum í 62-68. Finnur Atli minnkaði muninn en Helgi Viggós setti niður tvö víti. Staðan 64-70 og tæpar sex mínútur eftir. Þá gerði Emil Barja fimm stig í röð og Mobley kom aftur inn á fyrir Hauka. Þá duttu Stólarnir svolítið út úr sínum leik og menn fóru að reyna að hnoðast upp á sitt einsdæmi. Á meðan voru Haukarnir að setjann og þeir náðu að byggja upp ágætt forskot. Þessu svaraði Costa með því að setja Helga Margeirs inn og dúndra 3ja stiga skotum úr öllum mögulegum og ómögulegum færum. Helgi átti að skjóta og svo átti að brjóta! Þetta gekk sæmilega því Helgi minnkaði muninn í 84-81 en verra var að Haukarnir hafa verið að skila vítum niður af mun meira öryggi en Stólarnir þannig að þeir svöruðu jafnharðan og á endanum rann tíminn út og sigur Hauka staðreynd.
Sigurinn hefði í sjálfu sér getað endað hvorum megin sem var en heimamenn náðu að hvíla lykilmenn í síðari hálfleik og fengu þá ferska inn á ögurstundu. Kannski fór of mikið púður hjá Stólunum í að vinna upp forskotið í síðari hálfleik? Í liði Tindastóls var Pétur með enn einn stórleikinn en hann gerði 16 stig og tók 12 fráköst. Þá var Dempsey stigahæstur með 21 stig og átta fráköst. Lewis hefur ekki átt góða leiki gegn Haukum. Í gær skilaði hann þó 15 stigum og fimm stoðsendingum en Haukum hefur gengið alltof vel að minnka vægi hans í leik Stólanna. Helgi Viggós var seigur að venju og Viðar spilaði lengstum fína vörn á Kára en þrátt fyrir það endaði Kári með 18 stig og sex stoðsendingar. Þá var Helgi Margeirs eins og kálfur að vori og sprækur sem lækur, dúndrandi á körfuna utan landhelgislínunnar með ágætum árangri.
Næsti leikur er í Síkinu á þriðjudagskvöldið. Þá hyggjast Haukar fagna afmæli félagsins með því að tryggja sig inn í úrslitaeinvígið og senda okkar menn í sumarfrí en það er ljóst að Tindastólsmenn ætla að selja sig dýrt. Það verður allt klikk. Áfram Tindastóll!
Stig Hauka: Mobley 23, Emil 20, Kári 18, Haukur 12, Finnur 10, Kristinn J. 3 og Kristinn M. 3 stig.
Stig Tindastóls: Dempsey 21, Pétur 16, Lewis 15, Helgi Margeirs 12, Helgi Viggós 9, Viðar 5 og Ingvi 3.