- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Leikur Tindastóls og KR í kvöld var hreint út sagt geggjuð skemmtun frá upphafi til enda, allt frá því að Króksi kom með keppnisboltann í hús á gamla sendilshjólinu hans Bjarna Har og þangað til ljósin voru slökkt í húsinu. Ja það var rosalega gaman í Síkinu, í það minnsta ef þú hélst með Tindastólsmönnum. Staðan í einvígi liðanna er núna 1-1.
Stólarnir komu grimmir til baka eftir stórt tap í fyrsta leik. Þeir voru einbeittir allan leikinn, alltaf með sitt á hreinu og hvað er hægt að segja um Darrel Flake? Kappinn spilaði nánast á einari í kvöld og -gerði allt á vellinum- eins og Israel Martín, þjálfari Tindastóls, sagði eftir leikinn.
Áhorfendur fylltu Síkið sem aldrei fyrr og voru staðráðnir í að gefa sínum mönnum allan þann stuðning sem mögulegur var. Og ekki veitti af. Sumir andvörpuðu þegar þeir sáu Myron Dempsey á bekknum í borgaralegum klæðum þannig að augljóst var að hans kraftar kæmu ekki að notum í leiknum. –Þá er það búið, hugsuðu einhverjir.
Það var hins vegar ljóst strax frá byrjun að það var engin uppgjöf í Stólunum. Nú skildu KR-ingar fá að hafa fyrir hlutunum. Pavel negldi niður þristi í byrjun og þrátt fyrir ágætan leik þá voru það einu stigin sem sá höfðingi setti niður í kvöld. KR komst í 9-17 upp úr miðjum fyrsta leikhluta en tveir þristar frá Flake og tvö stig frá Ingva jöfnuðu metin. Jafnt var á flestum tölum en leikhlutann kláraði Lewis með flautuþristi og staðan 25-24 fyrir Tindastól.
Gríðarleg barátta var í öðrum leikhluta og mikið um mistök á báða bóga. Staðan var 32-32 þegar leikhlutinn var hálfnaður en þá gerðu Pétur og Svavar sitt hvora körfuna fyrir Tindastól en Helgi Magnússon, sem átti góðan leik fyrir KR, svaraði með þristi. Hvorugt liðið ætlaði undan að láta og staðan í hálfleik hnífjöfn, 40-40, eftir að Pétur Bigga Rafns gerði laglega körfu á lokasekúndum fyrri hálfleiks.
Flake og Lewis gerðu átta fyrstu körfurnar fyrir Stólana í þriðja leikhluta og það var nánast sama hverju Flake henti upp í loftið, í körfuna fór það. Kappinn var þó farinn að haltra og skömmu eftir að hann fékk sína þriðju villu fékk hann hvíld. Í stöðunni 52-46 tók Finnur þjálfari KR leikhlé og þegar leikur hófst á ný var Craion allt í öllu hjá gestunum og gerði átta stig og hirti nokkur fráköst á rétt rúmri mínútu og allt í járnum á ný. Staðan var 57-57 þegar Craion var hvíldur og tvær og half mínúta eftir af þriðja leikhluta. Stólarnir nýttu tímann ágætlega og gerðu fimm stig af vítalínunni á meðan vörnin hélt hinum megin. Staðan 62-57.
KR-ingar eru ekki Íslandsmeistarar fyrir einhverja tilviljun og þeir hafa oft reynst skeinuhættir í lokafjórðungi leikja. Það var því ljóst að Stólarnir máttu ekki gefa þumlung eftir og í raun bæta enn frekar í varnarleikinn þar sem Helgi Viggós barðist við Craion. Þetta kom enda á daginn. Helgi Magnússon minnkaði muninn í eitt stig, 66-65, þegar rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum, en Ingvi svaraði með þristi og hver annar en Flake bætti öðrum þristi við og staðan orðin 72-65. Aftur komu gestirnir og Brynjar Þór minnkaði muninn í 74-71 þegar ein og hálf mínúta var eftir en Stólarnir héldu haus og vel það, juku forskotið á meðan gestirnir voru að flýta sér um of. Endapunktinn setti síðan Helgi Margeirs með þristi ofan af Þverárfjalli. Þá varð allt enn vitlausara í Síkinu en það hafði verið fyrir og lokatölur 80-72.
Það var liðsheildin sem skóp sigurinn í kvöld. Allir gerðu sitt og sumir meira en vænta mátti. Flake var með 22 stig og sex fráköst, skotnýtingin flott. Og hvað þá með Darrel Lewis? Hann var magnaður með 26 stig, 11 fráköst og spilaði allar sekúndurnar í leiknum. Pétur var með sjö stig og átta stoðsendingar og Helgi Viggós setti níu stig, tók átta fráköst og lét Craion hafa fyrir hlutunum.
Nú er staðan 1-1 í einvíginu og ljóst að við fáum annan leik á Króknum í næstu viku en fyrst fer þriðji leikurinn fram í DHL-höllinni næstkomandi sunnudag. Áfram Tindastóll!
Stig Tindastóls: Lewis 26, Flake 22, Helgi Viggós 9, Ingvi 9, Pétur 7, Helgi Margeirs 5 og Svabbi 2.