Efsta og neðsta lið Domino´s deildar karla mættust í Stykkishólmi í kvöld en Tindastólsmenn fóru vestur á Snæfellsnesið og freistuðu þess að ná í sinn fyrsta sigur í deildinni en nokkrir leikir þeirra hafa tapast ansi naumt og þeir þyrstir í sinn fyrsta.
Byrjunarliðin:
Snæfell: Nonni Mæju, AsimMcQueen, Jay Threatt, Sveinn Arnar Davíðsson, Hafþór Ingi Gunnarsson.
Tindastóll: George Valentine, Drew Gibson, Helgi Rafn Viggósson, Helgi Freyr Margeirsson, Þröstur Leó Johannsson.
Leikurinn byrjaði af krafti og voru gestirnir að norðan sprækir með þrista frá Helga Frey og Gibson sem kom þeim í 3-8 í upphafi en Hafþór Ingi setti þá einn fyrir Snæfell. Tindastóll kom með hörkuvörn í upphafi og Snæfell fóru illa með nokkrar sóknir sínar og staðan 7-14 fyrir Tindastól þegar Snæfell tóku tíma. Snæfellingar héldu sig nærri og Ólafur Torfa minnkaði munin með þrist 17-19 en staðan eftir fyrsta hluta 17-21 fyrir Tindastól.
Tindastólsmenn voru í ham í upphafi annars hluta og Gibson smellti þremur, Svavar Atli bætti þremur við og Gibson smellti svo einum til og gjörsamlega allt féll í þeirra hendur í 9-2 kafla og staðan 19-30. Snæfelli voru mislagðar hendur, höfuð, herðar, hné og tær í flest öllu og gott ef þar voru ekki augu, eyru, munnur og nef líka. En spjallið við þjálfarateymið gaf þeim eitthvað og náðu þeir að rétta sig betur við og saxa á 29-32. Bæði lið börðust vel eftir það og jafnræði meira.
Jay Threatt jafnaði leikinn á vítalínunni 39-39 en Snæfell hafði verið að elta og verið á hælunum á köflum gegn öflugum Skagfirðingum sem voru í sveiflu. Jay kom Snæfelli í 41-39 áður en farið var út í hálfleikinn. Hjá Snæfelli var Sveinn Arnar kominnmeð 10 stig en Nonni og Hafþór fylgdu með 9 stig hvor. Í liði Tindastóls skal engan undra að Drew Gibson var kominn með 15 stig en næstur var Svavar Atli með 5 stig.
Leikurinn var í járnum og Snæfell leiddi naumt uns Tindastóll komst með krafti yfir 52-55 en Þröstur smellti stórum körfum og Valentine var kominn á meira flot en í liði Snæfells var Asim McQueen kominn með 4 villur. Þvílíkur leikur í gangi og liðin skiptust á forystu en Tindastóll hafði yfirhöndina eftir þriðja hluta 65-66.
Staðan var 70-70 þegar 3 mín voru liðnar af fjórða hluta og Sveinn Arnar hafði látið til sin taka fyrir Snæfell og Ólafur Torfason kominn með 5 villur en hinu megin var George Valentine allhress ásamt sínum meðreiðarsveinum. Snæfell tók þá stórstökk sem endaði með þrist frá Nonna Mæju og þakið ætlaði af húsinu 77-70 fyrir Snæfelli og Hafþór Ingi bætti öðrum til 80-70 og var kominn í gríðalegt stuð.
Tindastóll náði þessu niður í sex stig 82-76 og mínúta eftir. Snæfell hélt velli og kom sér aftur í 86-76 sem var lokastaðan og enn fá Tindastólsmenn að bíða eftir sigrinum eftir hörkuleik sem hefði auðveldlega getað fallið þeim í hag en þeir voru mikið ósáttir við dómgæsluna.
Helgi Rafn var að vonum svekktur þegar hann var inntur eftir vafdómum og tap í leiknum og sagði ”Við áttum bara að taka þennan leik og eins og þú segir vorum við ósáttir við vafadóma sem falla á okkur og taka okkur úr leiknum en við vorum bæði harðir í sókn og vörn og það er hellingur sem við eigum inni líka fyrir næsta leik sem við ætlum að taka með krafti.”
Snæfell: Sveinn Arnar 20/5 frák. Hafþór Ingi 18. Jón Ólafur 16/10 frák. Jay Threatt 12/5 frák/12 stoðs. Asim McQueen 10/6 frák.Pálmi Freyr 5. Ólafur Torfason 5. Stefán 0. Kristinn 0. Magnús 0. Kristófer 0. Óttar 0.
Tindastóll: Drew Gibson 24/7 frák/8 stoðs. George Valentine 16/10 frák. Þröstur Leó 10/4frák. Helgi Rafn 8/7 frák. Svavar Atli 7/4 frák. Hreinn Gunnar 3. Ingvi Rafn 3. Helgi Freyr 3. Sigtryggur Arnar 2. Pétur 0. Sigurður 0. Þorbergur 0.
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín