Hörkurimma gegn Þórsurum endaði með sigri Stólanna

Það var loksins að stuðningsmenn Tindastóls fengu hasar og spennu í Síkinu þegar lið Þórs frá Akureyri kom í heimsókn í kvöld. Flestir leikir Tindastóls hingað til hafa nánast verið búnir í hálfleik en Akureyringar náðu að halda í við Stólana þangað til fimm mínútur lifðu en þá sprungu þeir á limminu. Lokatölur voru 92-73 og Stólarnir komnir með fjögurra stiga forskot í 1. deildinni.

Þórsarar komu einbeittir og baráttuglaðir til leiks og náðu forystu í byrjun leiks. Þeir höfðu greinilega reiknað með pressu hjá Stólunum, sem gekk eftir, en gestunum gekk ágætlega að spila sig í gegnum pressuna.  Þórsarar komust í 5-11 en heimamenn jöfnuðu og höfðu síðan forystuna út fyrsta leikhluta. Staðan 22-20.

Eins og stundum áður í vetur þá varð pressuvörnin til þess að Tindastólsmenn söfnuðu villum af miklum móð og Proctor, sem annars var að spila vel, fékk sína þriðju villu snemma í öðrum leikhluta. Flake og Helgi Rafn drógu Stólana áfram og Helgi Rafn náði 11 stiga forystu, 38-27, um miðjan annan leikhluta. Þegar rúmar tvær mínútur voru til leikhlés kom Helgi sínum mönnum í 48-33 og í hálfleik var staðan 48-35.

Það hefði mátt halda að Tindastólsmenn teldu leikinn búinn og gestirnir væru búnir að gefast upp. Það var öðru nær. Hvorki gekk né rak fyrstu mínútur eftir hlé  og ekki bætti úr skák að Proctor fékk dæmt á sig tæknivíti, fjórðu villuna, að óþörfu. Áður en Stólarnir náðu að gera fyrstu stig sín höfðu Þórsarar minnkað muninn í 48-44. Þórsarar fylltust sjálfstrausti og börðust eins og ljón. Sérstaklega voru Ólafur Aron og Sindri að sína góða takta og í vörninni gáfu gestirnir ekkert.  Tindastóll komst í 54-46 en þegar tvær og hálf mínúta var eftir af fjórðungnum komust Þórsarar yfir, 56-57. Þá sagði Helgi Margeirs hingað og ekki lengra og setti niður tvær flauels 3ja stiga körfur og Stólarnir náðu takti fyrir fjórða leikhluta. Staðan 67-59.

Í fjórða leikhluti fór harður varnarleikur Þórsara að segja til sín því þeir fóru að týnast út af einn af öðrum með fimm villur. Þeir brutu endalaust á Proctor, Helga Margeirs og Helga Rafni og þeir tveir fyrrnefndu settu öll sín víti niður en fyrirliðinn fann ekki vítafjölina í kvöld. Þetta kom þó ekki að sök því Stólarnir spiluðu ágæta vörn og héldu 10-15 stiga forskoti síðustu mínúturnar og það var að sjálfsögðu Helgi Margeirs sem kórónaði frábæran síðari hálfleik sinn með 3ja stiga körfu hálfri mínútu fyrir leikslok.

Leikurinn var góð skemmtun og áhorfendur vel með á nótunum. Lengi vel virtist sem heimamenn héldu að sigurinn kæmi af sjálfu sér en þegar á þurfti að halda keyrðu þeir upp hraðann og baráttuna og innbirtu mikilvægan sigur. Stólarnir eru nú einir efstir með 16 stig eftir átta leiki, eiga einungis eftir að spila við Hött í fyrri umferðinni en sá leikur fer fram á Egilsstöðum 10. janúar.

Það var helst neikvætt í kvöld að bekkurinn hjá Stólunum skilaði aðeins tveimur stigum en strákarnir fengu kannski ekki eins mikinn tíma og oft áður, enda mótstaðan óvenju mikil. Proctor sýndi ágæta takta þær tæðu 19 mínútur sem hann spilaði og gerði 22 stig rétt eins og Helgi Rafn sem gerði 22 stig, tók 13 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Helgi er sennilega ekki eins sáttur við 20% vítanýtingu.

Stig Tindastóls: Proctor 22, Helgi Rafn 22, Flake 21, Helgi Margeirs 21, Pétur 7 og Ingvi Rafn 2.

Tölfræði leiksins á heimasíðu KKÍ >