Israel Martin næsti þjálfari Tindastóls

Stjórn KKD Tindastóls hefur náð samkomulagi við  Israel Martin um að hann verði næsti þjálfari félagsins.
Skrifaði I. Martin undir þriggja ára samning við félagið að hann verði þjálfari meistaraflokks karla og þjálfi einnig drengja og unglingaflokka félagsins.
I. Martin er Spánverji sem er með mikla reynslu í þjálfun og bindur stjórn KKD miklar vonir við kappann.
Síðastliðin 14 ár hefur I. Martin verið þjálfari á Spáni og verið þar í 7 ár hjá Tenerife þar sem liðið var byggt upp og komst í efstu deild á Spáni. Eftir 7 ár hjá Tenerife færir hann sig um set yfir til Canary eyja og er aðstoðarþjálfari þar með fyrrum þjálfara spænska landsliðsins, og saman koma þeir liðinu þar í efstu deild á spáni. Í vetur hefur I. Martin verið yfirþjálfari í Kosavo hjá liði Trepca sem spilar í Superleague og hefur náð góðum árangri þar, stýrði meðal annars stjörnuleik þar í gærkvöldi. 
Þess má til gamans geta að samningur I. Martins var undirritaður af formanni KKD á vinnustað formannsins, telur formaðurinn að hann hafi verið svona um það bil 83 sjómílur norðvestur af Hornbjargi þegar samningurinn var undirritaður og telst það líklega til einsdæmis að samningur við þjálfara sé undirritaður á þeim slóðum. 
Stjórn KKD leggur á það mikla áherslu að halda verði áfram að byggja liðið okkar upp og telur hún að I. Martin sé klárlega maðurinn í það verkefni.


f/h Körfuknattleiksdeild Tindastóls 

Stefán Jónsson Formaður.