- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
KR-ingar mæta í Síkið á fimmtudag í 13. umferð Domino's deildarinnar. KR-ingar eru með 16 stig og eru heitasta liðið í dag, hafa unnið fjóra leiki í röð. Á meðan sitja okkar menn sem fastast á botninum, með 4 stig.
KR hefur lagt lið Stjörnunnar, Skallagríms, KFÍ og Fjölni í síðustu fjórum leikjum og hafa mest megnis keyrt leikina áfram á íslenskum leikmönnum. Þeir sendu báða erlendu leikmenn sína í burtu fyrir jólin en hafa nú fengið einn stóran og stæðilegan Darshawn McClellan, sem tók 16 fráköst á móti Fjölni í síðasta leik.
Helgi Már Magnússon er þjálfari KR en honum til aðstoðar á hliðarlíunni er Gunnar Sverrisson, fyrrum þjálfari ÍR. Helgi er frákastahæstur KR-inga með 7.9 fráköst í leik, Brynjar Þór Björnsson er stigahæstur með 17.8 stig og hefur jafnframt sent flestar stoðsendingar eða 4.3 í leik. Í liði þeirra röndóttu má einnig finna unga og efnilega stráka eins og Martin Hermannsson sem skorað hefur 15.5 stig í leik og Kristófer Acox sem stigið hefur verulega upp í vetur. Þá er landsliðsmiðherjinn Finnur Atli Magnússon í liði KR og þeir eru því allt annað en árennilegir þessa dagana.
Okkar menn hafa komið illa undan jólafríi og liðið ekki að sýna þann leik sem þeir sýndu fyrir jólin. Lykilmenn eru auk þess hálf laskaðir, þannig var Þröstur Leó ekki með gegn Stjörnunni og aðeins skugginn af honum með hér heima gegn Sköllunum á dögunum. Þá glímir Drew Gibson við meiðsli sem hann virðist ekki ætla að hrista af sér. En það er nóg eftir af mótinu og sannarlega stig í boði hér og þar sem þarf að hirða. Strákarnir eiga mikið inni en þurfa að sýna sitt rétta andlit fyrr en seinna.
Leikurinn hefst kl. 19.15 eins og venjulega og verður í beinni útsendingu á Tindastóll TV.