- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það var mikil gleði hjá stuðningsmönnum Tindastóls í Síkinu í kvöld þegar Keflvíkingar komu í heimsókn. Búið var að trekkja upp mikið og gott stuðningsmannateymi í stúkunni sem hélt uppi frábærri stemningu á meðan Stólarnir spiluðu enn einn glimrandi leikinn og unnu gestina af fádæma öryggi. Lokatölur voru 97-74.
Fyrir leik afhenti formaður körfuknattleiksdeildar, Stefán Jónsson, hinum síunga Kára Mar blóm í tilefni óræðs afmælis og síðan fékk Helgi Rafn fyrirliði blómvönd í tilefni af 200 leik sínum í efstu deild. Síðan hófst baráttan og Stólarnir náðu strax yfirhöndinni og létu forystuna í raun aldrei af hendi. Í raun var hrein unun að horfa á liðið, dugnaðurinn og leikgleðin í fyrirrúmi og sama hver kom inná, allir geisluðu af sjálfstrausti. Viðar Ágústs óð að körfunni ef færi gafst en kappinn nefbrotnaði í fimmta skipti á dögunum og lék með sína alþekktu grímu af þeim sökum. Það var ekkert gefið eftir. Hjá gestunum voru það helst Guðmundur Jónsson og Þröstur Leó sem stóðu fyrir sínu en eins og oft áður í vetur var vörn Stólanna frábær og áttu Keflvíkingar oft í tómu basli með að koma upp með boltann og skipuleggja leik sinn. Staðan var 27-15 að loknum fyrsta leikhluta og í öðrum leikhluta fékk bekkurinn meira að spreyta sig og spilaði vel, Stólarnir komust í 42-26, en síðan kom mínúta þar sem menn misstu aðeins höfuðið. Þá tapaðist boltinn nokkrum sinnum og Keflvíkingar skiluðu niður körfum og fengu víti að auki og gestirnir gerðu 10 stig í röð. Svo var bara skrúfað fyrir þennan leka. Staðan í hálfleik 44-36.
Stólarnir héldu Keflvíkingum rólegum til að byrja með í síðari hálfleik en síðan fór að hitna í kolunum – enda höfðu Keflvíkingar ekki tapað í deildinni í Síkinu í 10 ár og vildu síður fara að byrja á því í kvöld. Israel Martin, þjálfari Tindastóls, rúllaði sínum mannskap af miklu öryggi og var ansi séður að spara reynsluboltann, Helga Margeirs, fram að hléi. Upp úr miðjum leikhlutanum kom magnaður kafli þegar liðin duttu í þann gírinn að negla niður 3ja stiga skotum. Helgi virðist hafa komið fyrir nokkrum sparifjölum í Síkinu og hann negldi niður tveimur þristum og Svabbi bætti einum í sitt safn. Fram að því höfðu Stólarnir misnotað öll 3ja stiga skot sín í leiknum. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 73-58. Á köflum í fjórða leikhluta spiluðu Stólarnir alveg geggjaðan körfubolta, bæði í vörn og sókn. Dempsey kláraði nánast leikinn snemma í fjórðungnum þegar hann setti niður silkimjúkan þrist, 77-58, og þá virtust gestirnir missa móðinn. Mikið mæddi á William Graves og lá við að upp úr syði milli hans og Helganna. Síðustu mínúturnar fengu yngri leikmenn að sprikla og sem fyrr segir voru úrslitin örugg.
Dempsey spilaði mjög vel í kvöld, setti niður nokkur dásamlega falleg skot við körfuna. Hann gerði 23 stig og tók 15 fráköst auk þess að stela 3 boltum. Lewis var ótrúlega seigur að vanda, með 26 stig og 4 stolna bolta, en var nú varla ánægður með hvað hann fékk lítið frá dómurum leiksins, sem voru þó ágætir. Pétur Birgis átti enn einn stórleikinn, setti 18 stig og átti 8 stoðsendingar.
Að leik loknum tilkynnti formaður körfuknattleiksdeildar að Svabbi hefði gert 2000 stig sitt þegar hann gerði fyrstu körfuna sína í kvöld. Eftir talsverðan fögnuð leiðrétti hann sig og sagði að reyndar hefði Svabbi brotið 3000 stiga múrinn í kvöld.
Stig Tindastóls: Lewis 26, Dempsey 23, Pétur 18, Svavar 9, Helgi Margeirs 7, Helgi Viggós 7, Viðar 5 og Ingvi Rafn 2.