Körfuboltaveturinn farinn af stað

Nú er ekki hægt að segja annað en að líf sé farið að færast í körfuboltann hér á Króknum. Tveir flokkar keppa á törneringum um helgina, drengjaflokkur á leik úti í dag, unglingaflokkur drengja á morgun hér heima, meistaraflokkur karla búinn að vinna sér inn fyrstu stigin í Dominos-deildinni og stúlknaflokkur hefur hafið leik. 
Það er semsagt allt að gerast. 
Um helgina er 9.flokkur stúlkna að keppa hér heima á törneringu og verður hún spiluð frá kl:13-16 í dag og á morgun frá kl:9-12. Við hvetjum þá sem komast í húsið til að kíkja við og hvetja stelpurnar. Tvær stelpur úr íþróttafélaginu Kormáki spila með okkar stelpum þar sem að liðin hafa mynda samstarf sín á milli.
10.flokkur drengja spilar törneringu í Njarðvík í dag og á morgun. Sumir keppendur fóru líklega þreyttir af stað þar sem að þeir luku dansmaraþoni í gær í skólanum. Tindastóll og Kormákur eru einnig í samstarfi í þessum flokki og fara því 3-4 drengir frá Kormáki með strákunum héðan.
Drengjaflokkur á útileik á móti Haukum kl:13 í dag á Schenkerhöllinni. Þeir sigruðu Njarðvík hér á heimavelli um síðustu helgi, feiknalið hjá þeim sem væri gaman að kíkja á.
Unglingaflokkur leikur kl:15 á morgun hér heima gegn Fjölni og má reikna með skemmtilegum leik þar á milli.
Meistaraflokkur kvenna átti að hefja sitt mót á morgun, sunnudag, en því miður varð ekki af því þar sem KFÍ bað um frest til að koma og keppa á móti okkur og verður sá leikur væntanlega spilaður í lok nóvember.
Svona í lokin er gaman að minnast á að Tindastóls menn náðu sér í fyrstu stigin á fimmtudaginn þegar þeir sigruðu Stjörnuna 80-85 í Garðabænum. Ætlunin var að sýna þann leik á netinu en einhverjir misbrestir urðu þar á en við vonum að sjálfsögðu til þess að útsending á næsta leik gangi betur. 
Eins og þið sjáið þá er nóg um að vera og ætti þetta að gleðja okkur körfuboltaáhugafólkið mjög.
Sjáumst á vellinum, áfram Tindastóll!