- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Kapparnir í Augnabliki úr Kópavogi komu í Síkið í gærkvöldi og léku við Tindastól í fyrstu umferðinni í 1. deild karla í körfubolta. Fyrir fram var reiknað með auðveldum sigri Stólanna og sú varð raunin. Þegar upp var staðið sigraði Tindastóll með 38 stiga mun, lokatölur 98-60.
Það varð ljóst strax í byrjun að mikill getumunur var á
liðunum og Tindastólsliðið auðsjáanlega í miklu betra formi. Byrjunarlið
Stólanna var skipað Flake, Proctor, Viðari, Pétri og Helga Rafni og það var
pressað á Augnabliksmenn um allan völl og greinilegt að það átti að koma í veg
fyrir að þeir færu með boltann yfir miðju. Þetta gekk sæmilega upp og Stólarnir
náðu ágætu forskoti en á móti kom að þegar gestunum tókst að koma boltanum
framhjá pressunni þá fengu þeir oftar en ekki góð færi sem þeir nýttu ágætlega
og fiskuðu óþarflega margar villur á leikmenn Tindastóls. Í stöðunni 20-13
gerðist sá fáheyrði atburður að Antoine Proctor fékk þrjár villur á sama
andartakinu; villu, tæknivillu og óíþróttamannslega villu, og þar sem hann var
þegar búinn að fá villu þar á undan var hann kominn með 4 villur eftir rúmlega
sex mínútna leik og var því kældur niður á bekknum. Augnablikarnir gengu á
lagið í kjölfarið og minnkuðu muninn örlítið fyrir lok fyrsta leikhluta, staðan
28-23.
Stólarnir styrktu stöðu sína hægt og sígandi í öðrum leikhluta og 18 stigum munaði þegar Proctor kom aftur til leiks og þrjár og hálf mínúta til leikhlés. Kappinn gerði síðan öll 10 stigin sem Stólarnir gerðu fram að hléi og staðan 59-35 í hálfleik.
Heldur dró af gestunum í síðari hálfleik og prýðileg vörn Stólanna hélt þeim í 9 stigum í þriðja leikhluta á meðan Stólarnir gerðu 22. Í fjórða leikhluta voru það mest yngri og óreyndari leikmenn Tindastóls sem fengu að spreyta sig og var þá nokkuð jafnræði með liðunum.
Bárður rúllaði mannskapnum vel í leiknum og spiluðu allir leikmenn meira en sjö mínútur. Gaman var að sjá til yngri strákanna og má til dæmis nefna Sigurð Pál Stefánsson sem gerði 9 stig og tók 4 fráköst. Stigahæstur í liði Stólanna var Proctor með 27 stig en Flake setti sallarólegur niður 15. Annars var nú hálfgerður kæruleysisbragur á köflum yfir sóknarleik Stólanna og skotnýting margra nokkuð döpur en þá kemur kannski inn í að mótherjinn var kannski óvenjulegur. Í liði Augnabliks glöddu augað nokkrir kunnuglegir kappar kenndir við Krókinn; Sigmar Logi Bjössa Sigtryggs, Þorbergur Ólafsson og þeir bræður Gunnar Ingi og Hákon Már Bjarnasynir. Þó að geta gestanna hafi ekki verið á pari við getu heimamanna létu þeir finna vel fyrir sér og fóru nokkrir leikmenn Tindastóls tímabundið af velli eftir að hafa fengið væna pústra.
Stig Tindastóls: Proctor 27, Flake 15, Pétur Rúnar 14, Helgi
Rafn 12, Sigurður Páll 9, Ingvi Rafn 6, Páll 5, Friðrik 4 og þeir Helgi Freyr,
Hannes Ingi og Viðar gerðu 2 stig hver.