Annasöm helgi er framundan hjá félaginu en alls fara fram 6 leikir um helgina hjá meistaraflokki karla, meistaraflokki kvenna, 11. flokki, drengjaflokki og unglingaflokki. Meistaraflokkur karla ríður á vaðið í síðasta leik þeirra á tímabilinu þegar þeir taka á móti Hetti Egilstöðum. Eins og allir vita hafa strákarnir nú þegar unnið deildarmeistaratitilinn en fulltrúar KKÍ munu mæta og afhenda bikarinn við lok leiks. Stax að því loknu, eða um 21.15, munu sömu lið etja kappi í 11.flokki drengja.Á laugardeginum verða aftur tveir heimaleikir. Kl. 14.00 á meistaraflokkur kvenna leik við Þór Akureyri,sem er jafnframt síðasti leikurinn þeirra á tímabilinu. Stelpurnar hafa staðið sig mjög vel í vetur og með sigri í leiknum geta þær tryggt sér þriðja sæti deildarinnar. Að leik loknum fara stelpurnar að leggja lokahönd á undirbúning konukvöldsins sem haldið verður um kvöldið (og við hvetjum að sjálfsögðu sem flestar konur/stelpur til að mæta). Á meðan, eða kl.16.00, tekur svo drengjaflokkur á móti KR.Á sunnudeginum verða tveir leikir kl. 12.00, annar þeirra hér heima og hinn í Stykkishólmi. Unglingaflokkur karla tekur á móti Fjölni í Síkinu og 11. flokkur drengja leikur sinn annan leik þessa helgina þegar þeir mæta Snæfelli a útivelli.
Allir sem vettlingi valda eru að sjálfsögðu hvattir til að taka eina allsherjar körfuboltahelgi og mæta á sem flesta leiki um helgina. Áfram Tindastóll!!