ÍR-ingar gerðu út um bikardraum Tindastólsmanna í hörkuleik

Tindastóll og ÍR mættust í hörku körfuboltaleik í Síkinu í kvöld en um var að ræða undanúrslitaleik í Powerade-bikarkeppni KKÍ. Góð stemning var í Síkinu, fjöldi áhorfenda og fámennur en hávær stuðningsmannahópur Breiðhyltinga kryddaði stemninguna enn frekar. Þegar upp var staðið voru það gestirnir sem reyndust sterkari, sigruðu 79-87, og mæta Grindvíkingum í úrslitaleiknum í Laugardalshöllinni.

Leikurinn fór vel af stað þó liðunum gengi illa að koma boltanum í körfuna. Flake gerði fyrstu körfuna en það tók gestina þrjár mínútur að ná sínum fyrstu stigum. Þegar leikmenn náðu mesta skjálftanum úr sér voru það Stólarnir sem fundu taktinn fyrr og hófu Helgi Margeirs og Proctor að negla niður hvern þristinn af öðrum. Stólarnir komust í 20-11 og voru síðan yfir 23-14 að loknum fyrsta leikhluta. Nigel Moore kveikti vonir hjá ÍR-ingum í byrjun annars leikhluta en það var sama hvað gestirnir gerðu, Stólarnir virtust alltaf eiga svar. Helgi setti niður þrist um miðjan leikhlutann og heimamenn komnir með 12 stiga forystu, 33-21, en Nigel Moore svaraði í sömu mynt. ÍR náði smá endurkomu undir lok fyrri hálfleiks og Sveinbjörn Claessen minnkaði muninn með 3ja stiga körfu í 41-35.

Tindastólsmenn virtust ekki alveg hafa trú á verkefninu í upphafi síðari hálfleiks á meðan ÍR-ingar komu tvíefldir til leiks. Stólunum gekk brösulega að finna færi á vörn gestanna og skyndilega rötuðu 3ja stiga skotin ekki rétta leið. Um miðjan þriðja leikhluta komst ÍR yfir í fyrsta skipti í leiknum, 47-49, þegar Ragnar Örn Bragason lagði þrist í púkkið og þar með kviknaði á honum. Ingvi Rafn kom heimamönnum yfir 54-53 en aftur kláruðu gestirnir leikhlutann sterkt og höfðu fjögurra stiga forystu, 56-60, fyrir lokaátökin. Proctor jafnaði 62-62 en gestirnir létu ekki deigan síga, Ragnar setti tvö þriggja stiga skot niður fyrir ÍR á skömmum tíma og staðan 65-70 og skömmu síðar bætti Matthías Sigurðsson við þristi. Munurinn skyndilega orðinn átta stig og rétt rúmar fimm mínútur eftir. Stólarnir reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en lið ÍR spilaði vel á þessum kafla og voru að hitta vel. Þrátt fyrir góðan stuðning síðustu mínúturnar náðu Stólarnir ekki að nálgast gestina að ráði, Helgi Margeirs setti niður þrist og minnkaði muninn í 79-84 þegar 15 sekúndur voru eftir en það reyndist ÍR-ingum ekki vandamál að halda út og lokatölur 79-87.

ÍR-ingar fögnuðu að vonum innilega í leikslok ásamt dugmiklu stuðningsmannaliði og voru þeir í raun vel að sigrinum komnir. Voru mjög sterkir í síðari hálfleik. Það var skarð fyrir skildi hjá Stólunum að Helgi Rafn gekk augljóslega ekki heill til skógar og átti erfitt uppdráttar undir körfu andstæðinganna. Annars voru þeir leikmenn sem komu við sögu að gera vel en í kvöld voru gestirnir sterkari. Proctor sýndi oft laglega takta en fór stundum frammúr sjálfum sér en endaði með 27 stig og átta fráköst. Helgi Margeirs skilaði niður fimm 3ja stiga körfum í 10 tilraunum og endaði með 18 stig. Þá var Pétur með 11 stig og átta fráköst. Helgi Rafn reif niður níu fráköst.

Það er því ljóst að bikardraumurinn er úti í þetta skiptið – það hefði verið gaman að taka Grindvíkinga í úrslitaleiknum – en við óskum ÍR-ingum góðs gengis í Höllinni.

 

Stig Tindastóls: Proctor 27, Helgi Margeirs 18, Pétur 11, Ingvi Rafn 8, Flake 8 og Helgi Rafn 7.