- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tók á móti liði ÍA í 1. deild karla í
körfuknattleik í Síkinu í kvöld. Það er skemmst frá því að segja að gestirnir
sáu aldrei ljóstýru í leiknum, 24 stigum munaði í hálfleik og 40 stigum þegar
upp var staðið, lokatölur 110-70 og Stólarnir með flottan leik í vörn og sókn.
Antoine Proctor var í svaka stuði frá byrjun og raðaði niður körfum í öllum regnbogans litum. Pétur Birgis var sömuleiðis alveg magnaður og stal boltum og varðist einstaklega vel auk þess að eiga sjö stoðsendingar í leiknum. Stólarnir sigu hægt og rólega fram úr í fyrsta leikhluta en leikurinn var aftur á móti geysihraður, enda pressuðu leikmenn Tindastóls gestina um allan völl og gættu þess sérstaklega að Warren, eldsnöggur og flinkur kani þeirra Akurnesinga, fengi aldrei frið með boltann. Það gekk ágætlega upp og varnarleikur heimamanna magnaður á löngum köflum. Staðan var 32-21 að loknum fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta hægðist aðeins á leiknum. Helgi Margeirs fann fjölina sína og setti niður tvo þrista og endurkoma gestanna aldrei í spilunum eftir það. Staðan í hálfleik 55-31.
Stólarnir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og virtust heimamenn hafa ansi gaman af að kafsigla gestina. Það voru flestir í góðu stuði og Flake og Helgi Rafn flottir og ekki þóttum stuðningsmönnum Stólanna leiðinlegt að sjá Flake og Helga í hraðaupphlaupi þar sem Flake kastaði boltanum upp í loftið og Helgi kom á ferðinni og tróð með einari - jíha! Staðan 86-51 í upphafi fjórða leikhluta og ungu skytturnar fengu að eyða púðri þegar á leið en gestirnir voru alveg búnir að fá sig fullsadda og virtust þeirri stundu fegnastir þegar lokaflautið gall. 110-70.
Sem fyrr segir; frábær leikur hjá Tindastólsmönnum og fengu þeir gott klapp að leik loknum. Stólarnir eru efstir og taplausir í 1. deild en Þórsarar frá Akureyri hafa unnið seiglusigra og eru með jafn mörg stig og Stólarnir. Liðin mætast í Síkinu um miðjan desember.
Stig Tindastóls: Proctor 29, Helgi Rafn 23/8 frk, Flake 17/15 frk, Helgi Margeirs 11/7 frk, Pétur 11/7 sts, Ingvi 7, Sigurður 5, Friðrik 3, Páll 3 og Ingimar 1.