- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Sprækir Njarðvíkingar mættu í Síkið í kvöld og spiluðu hörkuleik við lið Tindastóls. Gestirnir voru lengstum skrefinu á undan með Loga Gunnars í stuði og Atkinson ólseigan en Stólarnir reyndust þó seigari á lokametrunum, náðu forystunni þegar mestu skipti og gestirnir fóru á taugum. Lokatölur 88-79 fyrir Tindastól.
Það var fín mæting í Síkið og stuðningsmenn Stólanna æstir í að sjá nýju mennina, Gurley og Dempsey, leika listir sínar. Gurley hóf leik ásamt Lewis, Pétri, Viðari og Helga Viggós en eitthvað var kappinn vanstilltur í byrjun, eins og reyndar allt lið Stólanna, því Njarðvíkingar voru komnir í 0-9 eftir tvær og hálfa mínútu. Costa tók leikhlé og reyndi að stilla kompásinn. Staðan var síðan 2-13 en þá skipti Dempsey við Gurley og Stólarnir hrukku loks í gang. Dempsey kom Stólunum yfir 18-16 en fimm eldsnögg stig frá Loga og víti frá Atkinson breyttu stöðunni í 20-23 áður en fyrsti leikhluti kláraðist.
Aftur byrjuðu Stólarnir hörmulega og Njarðvík náði tíu stiga forskoti, 20-30. Gestirnir voru að hitta nokkuð vel fyrir utan, hreyfðu boltann hratt og Logi virtist alltaf getað búið sér til pláss þó hann væri ekki með neinar veifiskötur í grillinu. Aftur komu Stólarnir þó til baka og nú náði Gurley að láta til sín taka. Kappinn vill þó ógjarnan láta boltann af hendi, reyndi mikið upp á eigin spýtur og hefur reyndar snerpu, tækni og áræðni til að keyra að körfunni. Hann setti niður tvo þrista í röð og jafnaði leikinn 35-35 en aftur féll boltinn með Njarðvíkingum á síðustu mínútum leikhlutans og staðan í hálfleik 40-43.
Þriðji leikhluti var hnífjafn og skemmtilegur og nú náðu Stólarnir að halda gestunum undir 20 stigum. Liðin skiptust á um að hafa forystuna. Atkinson kom gestunum þó yfir, 60-61, og fékk víti að auki rétt áður en leikhlutinn kláraðist en hann klikkaði af línunni, setti niður 5 af 10 vítaskotum sínum í kvöld. Það var gríðarleg barátta og mikill hraði í fjórða leikhluta og nú fóru dómararnir að láta til sín taka. Njarðvíkingar komust í 65-70 þegar sjö mínútur lifðu af leiknum en þá náðu Stólarnir kafla þar sem þeir skoruðu tíu stig í röð. Lewis jafnaði leikinn 70-70 og í kjölfarið fylgdi glansþristur frá Svabba og tvö stig frá Gurley.
Þarna voru enn fimm mínútur eftir en það var eins og Njarðvíkingar færu hálfpartinn á taugum við það að vera allt í einu lentir undir. Logi svaraði þó fyrir sína menn og vörn gestanna var grimm. Stólarnir fengu innkast þegar rúmar tvær sekúndur voru eftir á skotklukkunni. Gurley tók skot úr horninu sem var varið en Pétur greip boltann og skaut í sömu andrá og beint niður. Hólí móli! Hann náði síðan frábærri vörn á Loga sem brást bogalistin og í næstu sókn setti Pétur niður þrist – af því að hann getur það! Staðan 80-72 og staða Tindastóls vænleg. Í stöðunni 82-74 fengu Njarðvíkingar síðan þrjú víti og boltann og minnkuðu muninn í 82-78 en í framhaldinu sauð upp úr hjá gestunum og á meðan Stólarnir skiluðu stigum á töfluna lá gestunum alltof mikið á að klára sóknir sínar og skotin misstu marks. Gríðarlega mikilvægur sigur því í höfn. Lokatölur 88-79.
Lewis var stigahæstur í liði Tindastóls með 22 stig og fjögur fráköst. Anthony Gurley gerði 21 stig og tók sömuleiðis fjögur fráköst og síðan var Dempsey með 16 stig og fimm fráköst. Pétur reyndi lítið fyrir sér í skotum en nýtti þau vel og má segja að hann hafi gert mikilvægustu körfur leiksins þegar hann gerði fimm stig í röð. Hann kláraði leikinn með sjö stig og átta stoðsendingar. Viðar fékk það hlutverk að gæta landsliðsmannanna, Loga og Hauk Helga, og tókst það ágætlega og Helgi Rafn fékk að kljást við Atkinson. Helgi var góður og endaði með tíu stig og sjö fráköst. Flake kom ekki við sögu í leiknum í kvöld en Svabbi átti ágæta innkomu.
Næsti leikur er hér heima næstkomandi fimmtudag þegar Snæfell kemur í heimsókn. Það er annar leikur sem verður að vinnast. Áfram Tindastóll!
Stig Tindastóls: Lewis 22, Gurley 21, Dempsey 16, Helgi Viggós 10, Pétur 7, Svabbi 5, Viðar 4 og Ingvi 3.