- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll fór aftur í Ljónagryfjuna í gærkvöldi eftir að
hafa mátt lúta í parket þar í bikarnum í byrjun vikunnar. Rétt eins og þá var
það varnarleikur liðanna sem var í fyrirrúmi að þessu sinni, leikurinn
æsispennandi og að loknum venjulegum leiktíma var jafnt, 64-64. Njarðvíkingar
reykspóluðu yfir Stólana í framlengingunni og sendu strákana stigalausa heim á
Krók.
Fyrsti leikhluti var jafn og að honum loknum var staðan 17-16 fyrir heimamenn í Njarðvík. Njarðvíkingar náðu ágætu forskoti strax í byrjun annars leikhluta, gerðu fyrstu sjö stigin og komust í 24-16. Þessi leikhluti var slæmur hjá Stólunum sem gerðu aðeins átta stig í honum og Njarðvíkingar höfðu yfir í hálfleik, 33-24.
Pétur Bigga hóf þriðja leikhluta á því að setja niður sjaldséðan þrist fyrir Stólana en 3ja stiga nýting liðsins hefur ekki verið upp á marga fiska að undanförnu, 5 skot í 30 tilraunum rötuðu niður í gær sem er 17% nýting en nokkur voru örvæntingarskot í framlengingunni. Vörn Stólanna hélt vel og þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum var staðan 42-41. Þá var komið að þætti Jerome Hill, sem ekki hefur verið að skila því sem reiknað var með í fyrstu leikjum hans, og hann gerði öll 11 stig Stólanna til loka leikhlutans, þar á meðal tvö 3ja stiga skot. Staðan 47-50.
Rétt eins og á mánudagskvöldið var leikurinn æsispennandi í fjórða leikhluta, Stólarnir yfirleitt þetta þremur til fimm stigum yfir framan af, en Haukur Helgi meiddist hjá Njarðvíkingum undir lok þriðja leikhluta og heimamenn smá tíma að finna taktinn án hans. Heimavöllur heimamanna er þó ekki kaður Ljónagryfjan bara af því bara og þeir komu til baka. Logi Gunnars kom þeim yfir, 64-62, Stólarnir klikkuðu síðan á þremur skotum, sem ýmist geiguðu eða voru varin, áður en Helgi Viggós jafnaði 64-64. Njarðvíkingar náðu tveimur skotum á körfu Tindastóls áður en tíminn rann út en klikkauðu á báðum.
Í framlengingunni tóku Njarðvíkingar strax öll völd, Stólarnir lentu í að elta og skotin rötuðu ekki niður. Niðurstaðan 18-9 að loknum þessum fimm mínútum og Njarðvíkingar sigruðu því 82-73.
Þriðja tap Stólanna í þremur síðustu leikjum í Dominos-deildinni því staðreynd en í liðið vantaði Addú (Arnþór). Hann er frá keppni í nokkra daga, fékk heilahristing eftir að hafa lent á samherja sínum, Darrel Flake, í leiknum á mánudag. Darrel Lewis var að venju stigahæstur í gærkvöldi með 23 stig og hann tók einnig flest fráköst Stólanna eða 14. Þá var Helgi Viggós öflugur með 16 stig og níu fráköst og var annan leikinn í röð með flestar stoðsendingar eða sex talsins. Jerome Hill tók ellefu fráköst en gerði aðeins þrjú stig til viðbótar við þessi ellefu sem hann gerði undir lok þriðja leikhluta. Marquise Simmons var með 18 stig og 21 frákast fyrir heimamenn í Njarðvík.
Næsti leikur Stólanna er hér heima nk. fimmtudag en þá kemur Höttur í heimsókn með Hreinsa Birgis í broddi fylkingar.
Stig Tindastóls: Lewis 23, Helgi Viggós 16, Hill 14, Flake 8, Pétur 7, Hannes 2, Viðar 2 og Helgi Margeirs 1.