- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Það er langt síðan Tindastóll hefur átt svo mörg lið í úrslitakeppni Íslandsmótsins og nú. Alls hafa 4 lið þegar tryggt sér sæti í fjögurra líða úrslitunum og unglingaflokkur karla er kominn í 8-liða úrslit. Núna um helgina eru það stúlknaflokkur, drengjaflokkur og 9. flokkur stúlkna sem spila á fyrri úrslitahelgi Íslandsmótsins í Njarðvík.
Stúlknaflokkur ríður á vaðið, en hið sameiginlega lið KFÍ og Tindastóls mætir Keflavík á föstudagskvöldið kl. 20. Stelpurnar náðu fjórða sætinu í síðustu umferð fjölliðamótanna með sigri á KR/Snæfelli í hörkuleik. Keflavík er með sterkt lið í þessum flokki og nokkrar þeirra spila lykilhlutverk í meistaraflokki þar sem Keflavíkurliðið er einmitt komið í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.
9. flokkur stúlkna mætir Haukastelpum á laugardaginn kl. 10. Þessi lið hafa tvisvar sinnum leikið í vetur og hafa Haukar sigrað með 10 stiga mun í báðum leikjunum. Þessi leikur verður hins vegar 50/50 og oftast er það liðið sem berst meira sem halar inn sigur í svona leikjum.
Drengjaflokkur mætir Njarðvík í undanúrslitum og fer leikurinn fram á laugardaginn kl. 19. Gott gengi hefur verið á strákunum í vetur og þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum í riðlinum og náðu 2. sæti hans. Unnu svo Grindavík næsta auðveldlega í 8-liða úrslitunum og hafa því tryggt sér sæti í undanúrslitunum eins og áður segir.
Allir leikirnir verða í beinni tölfræðiútsendingu á kki.is. Verið er að kanna hvort þeir verði einnig í beinni netútsendingu og vonandi tekst það hjá Njarðvíkingunum.
Seinni úrslitahelgin verður 26. - 28. apríl í Grafarvogi, en þá munu 10. flokkur stúlkna og þá vonandi unglingaflokkur karla keppa í undanúrslitum sinna flokka.