- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll tekur á móti Skallagrími í Domino's deildinni Í KVÖLD kl. 19.15 í Síkinu. Skallarnir hafa komið skemmtilega á óvart það sem af er, en okkar menn eiga ennþá eftir að landa fyrsta sigrinum í deildinni.
Þeir sem sáu Skallagrímsmenn hérna á undirbúningstímabilinu sáu að þar fór sterk liðsheild og nú hafa tveir góðir erlendir leikmenn bæst við hópinn. Carlos Medlock leiðir stigaskor Skallanna, en kappinn sá hefur skorað 24.5 stig að meðaltali í leik. Undir körfunni hafa þeir svo áhugaverðan kraftframherja Haminn Quaintance, sem sker sig nokkuð úr á velli fyrir fríkaða hárgreðislu, hann hefur tekið flest fráköst eða 8.7 og jafnframt sent flestar stoðsendingar, 4.3, sem er nú ekki algengt hjá manni í þessari stöðu. Þar fer því öflugur leikmaður með gott auga fyrir samleik við samherja sína, auk þess sem hann setur rúm 17 stig í leik. Pál Axel Vilbergsson þarf vart að kynna, hann opnaði Íslandsmótið með 45 stigum á móti KFÍ, en hefur skorað 22.3 stig að meðaltali í leik. Trausti Eiríksson og Orri Jónsson eru duglegir strákar sem gefa ekkert eftir og ekki má gleyma "þeim gamla," Sigmari Egilssyni sem lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að vera 39 ára gamall.
Spilamennska okkar stráka hefur verið að batna mikið upp á síðkastið og Stjörnuleikurinn á sunnudaginn líklega einn sá allra besti í vetur. Liðið hefur verið óheppið að klára ekki alla vega tvo deildarleiki á móti KFÍ og Fjölni úti, en spilað aftur á móti vel í Lengjubikarnum. Stöðugleikann hefur skort, en miðað við sjálfstraust leikmanna í síðasta leik er ekki loku fyrir það skotið að menn finni fjölina sína í deildinni líka, því liðið okkar er gott og tilfinningin sú að það vanti bara fyrsta sigurleikinn í deildinni til að koma mönnum á gott skrið.
George Valentine leiðir tvo tölfræðiþætti í okkar liði, hann er stigahæstur með 15.3 stig í leik og hefur tekið 10 fráköst. Isacc Miles hefur sent 5.8 stoðsendingar. Helgi Rafn hefur skorað mest íslensku leikmannanna eða 13.5 og auk þess tekið 8 fráköst. Annars má sjá alla uppsafnaða tölfræði liðsins HÉR aðeins þarf að smella á "Uppsöfnuð tölfræði" til að sjá herlegheitin.
Stuðningur áhorfenda skiptir miklu máli eins og venjulega og sannarlega tilefni til að fjölmenna í Síkið á fimmtudagskvöld og sjá það sem án efa verður hörkuviðureign tveggja skemmtilegra liða.
Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á leikinn er bent á Tindastoll-TV sem verður með beina netútsendingu að venju.
ÁFRAM TINDASTÓLL!!!