- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Domino's deildin heldur áfram á fimmtudag þegar strákarnir okkar heimsækja Snæfellinga í Stykkishólmi. Liðin hafa átt ólíku gengi að fagna, Snæfell trónir á toppnum, en Tindastóll vermir botnsætið.
Snæfellingar hafa unnið 5 leiki en tapað einum, en Tindastóll án stiga í botnsætinu eftir 5 leiki. Saga Tindastóls í upphafi síðustu keppnistímabila hefur verið á þessa vegu; 2009 byrjaði liðið 0-4, 2010 0-5, 2011 0-5 og núna 2012 er byrjunin líka 0-5 það sem af er. Eflaust má leita einhverra skýringa á hverju tímabil fyrir sig, en það er nauðsynlegt að fara í greiningarvinnu og leita ástæðna fyrir þessu, því það er ákaflega dýrt að tapa mörgum leikjum í upphafi tímabils, ár eftir ár.
Sagan segir okkur að næsti leikur eigi að vera sigurleikur og strákarnir geta vel farið í Hólminn og tekið þar sigur. Liðið okkar hefur verið að spila stórvel á köflum en skort einbeitingu og áræðni til að loka leikjum og staðan væri klárlega önnur ef þetta hefði verið til staðar. Heimasíðan telur að 6 stig séu farin í súginn vegna þessa.
En það býr mikið í liðinu og aðeins 5 leikir búnir, sem þýðir 17 leikir eftir, nóg til þess að rétta skútuna af í deildinni og komast í úrslitakeppnina. Nýi leikmaðurinn Drew Gibson lofar góðu, hann sendir magnaðar stoðsendingar og þurfa strákarnir smá tíma til að aðlagast nýrri vídd í leikstjórnandastöðunni.
Leikurinn í Hólminum hefst kl. 19.15 á fimmtudaginn og verður hann sýndur beint á Sport TV og ætli Kiddi Ká verði ekki að lýsa? Stuðningsmenn ætla að hittast á Mælifelli og horfa saman á leikinn á breiðtjaldi. Samkomur þessar hafa verið stórvel sóttar og mikil og góð stemning skapast. 25% af veitingasölu kvöldsins rennur til körfuknattleiksdeildarinnar.
Á sunnudag verður síðan hreinn úrslitaleikur við Stjörnuna um sigur í C-riðli Lengjubikarsins. Tindastóll er sem stendur á toppnum með 10 stig, en Stjarnan hefur 8. Framhaldið í þessari keppni veltur því á innbyrðisviðureignum liðanna, þar sem Tindastóll leiðir með 15 stigum eftir 109-94 stiga sigur í leik liðanna í Síkinu. Það væri ansi skemmtilegt að komast í "final four" í Lengjubikarnum og hreint út sagt flottur árangur, en Tindastólsliðið hefur verið að spila ákaflega vel í þessari keppni. Búið er að staðsetja lokakeppni Lengjubikarsins í Stykkishólmi föstudaginn 23. og 24. nóvember.