Stúlknaflokkur, 9. flokkur stúlkna og drengjaflokkur töpuðu öll undanúrslitaleikjum sínum í Íslandsmótinu í Njarðvík núna um helgina og hafa því lokið keppni í vetur.
Sameiginlegur stúlknaflokkur KFÍ og Tindastóls hóf leik í gærkvöldi gegn firnasterku Keflavíkurliði. Stelpurnar töpuðu 78-41. Þrátt fyrir það börðust þær allan leikinn og gáfust aldrei upp. Eva Margrét Kristjánsdóttir var stigahæst með 26 stig en hún tók jafnframt 16 fráköst. Árdís Eva Skaftadóttir setti 7 stig og þær Guðlaug Rún og Rósa Överby 4 hvor.
Í morgun var komið að 9. flokki stúlkna. Staðan var 9-8 fyrir Hauka eftir fyrsta leikhlutann en í hálfleik var hún orðin 23-16. Stelpurnar byrjuðu svo seinni hálfleikinn illa og tókst ekki að minnka muninn fyrr og staðan fyrir upphaf fjórða leikhlutans var 39-24 fyrir Hauka. Stelpurnar lokuðu þó leiknum á því að vinna síðasta leikhlutann en lokatölur 52-39 fyrir Hauka. Kolbrún Ósk og Bríet Lilja voru stigahæstar með 11 stig hvor, auk þess sem Bríet tók 11 fráköst, Linda Þórdís skoraði 10 stig og Valdís Ósk 7 og sendi 6 stoðsendingar.
Drengjaflokkurinn spilaði svo gegn Njarðvíkingum í kvöld og töpuðu naumlega 104-101 í ótrúlegum leik. Staðan í hálfleik var 56-38 eða 18 stiga munur og við upphaf síðasta leikhlutans var staðan 82-63 og fátt í spilunum að þetta yrði jafn leikur. En okkar strákar tóku heldur betur við sér í síðasta leikhlutanum og með alveg ótrúlegri baráttu náðu þeir að vinna upp þetta 19 stiga forskot heimamanna og jöfnuðu leikinn 94-94. Njarðvíkingar urðu hins vegar sterkari á lokasprettinum og unnu sigur eins og áður segir 104-101. Pétur Rúnar skoraði 35 stig í leiknum, Agnar Ingi var með 18, Friðrik Þór 17 og 7 stoðsendingar, Viðar 10 og heil 18 fráköst, Ingvi Rafn 9, Sigurður Páll 8 og Þröstur 4.
Þar með er fyrri úrslitahelginni lokið hjá okkar krökkum sem sannarlega geta verið stolt af árangri vetrarins, þrátt fyrir að komast ekki í úrslitaleikina. Um næstu helgi er það 10. flokkur stúlkna sem mætir Keflavík í undanúrslitunum og á þriðjudaginn koma Fjölnismenn í heimsókn í Síkið í 8-liða úrslitum unglingaflokks og hefst leikurinn kl. 19.15. Ef strákarnir leggja þá að velli, komast þeir í undanúrslitin um næstu helgi.