13.12.2012
Tindastóll sigraði spræka ÍR-inga í kvöld, 96-90 og fylgdi þannig á eftir góðum sigri á Njarðvík fyrir viku síðan. Liðin buðu upp á hörkuleik þar sem jólastemningin var í fyrirrúmi en Tindastólsliðið var þó með örlitla yfirhönd, kannski svona einu stigi yfir mest allan tímann og unnu að lokum nokkuð sanngjarnan sigur.
Töluvert mikið var í húfi í kvöld, og þá kannski sérstaklega fyrir Tindastólsliðið sem hefur gengið glæpsamlega illa í byrjun móts og máttu tæplega við að tapa þessum leik upp á framhaldið að gera. Það voru þó ÍR-ingar sem byrjuðu aðeins betur og settu tóninn með stuttum sóknum og mörgum skotum. Það tók Tindastólsliðið smá tíma að átta sig á ryðmanum í leik ÍR-inga en eftir að það var komið þá stilltu þeir sig á sömu bylgjulengd og ÍR-ingarnir og það var síðan eins og liðin væru að stíga léttan dans langt fram eftir leik þar sem jafnt var á nánast hverri einustu tölu. Þegar vel gengur þá býður svona spilamennska upp á mikið af körfum og sú var raunin í kvöld því staðan í hálfleik var 53-49 og áhorfendur löngu búnir að fá upp í þúsund kallinn sem þeir borguðu inn á leikinn.
Í seinni hálfleik hélt stuðið áfram, margar körfur, allt jafnt og nokkur ágætustu tilþrif litu dagsins ljós á parketinu í Síkinu. Í fjórða leikhluta, leikhlutanum sem telur aðeins meira en hinur, stigu Stólarnir þó aðeins meira á bensíngjöfina en ÍR-ingarnir, og vorum búnir ná í 9 stiga forskoti á gestina í stöðunni 84-75 og 6 mínútur eftir, með "spjaldið ofan í þrist" frá Arnari Bjössa Sigtryggs sem átti flottan leik í kvöld.
Eftir það þurftu ÍR-ingarnir að eyða miklu púðri í að elta heimamenn uppi en höfðu ekki erindi sem erfiði. Tækifærið var þó í boði þegar Eric Palm fékk tvö opin þriggja stiga skot í röð þegar mínútu var eftir og fimm stiga munur, en þegar á reyndi fóru skotin ekki ofan í og Tindastólsliðið landaði leiknum með smá herkjum í lokin.
Mikilvægur sigur hjá Tindastóls sem verða reyndar ennþá í síðasta sæti þegar jólin ganga í garð en ekki lengur því allra síðasta. ÍR-liðið spilaði í raun ágætlega í kvöld, bestir voru Eric Palm og Hreggviður Magnússon sem höfðu sig mikið í frammi. Þá hitti Isaac nokkur Miles sem byrjaði tímabilið í Tindastólsbúning, ágætlega úr vítaskotum í leiknum. Átta af átta. Þau telja þessi víti.
Tindastólsliðið lék hins vegar aðeins betur og liðsheildin var að virka mjög vel hjá þeim í kvöld, allir leikmenn voru að spila virkilega vel. Tveir leikmenn stóðu þó uppúr, George Valentine var með 26/14 leik, en það hefur verið magnaður stígandi í hans leik í vetur og hann virðist verða betri í körfubolta með hverjum deginum sem líður, sem eru ágætar fréttir fyrir Stólanna. Þröstur Leó kom síðan með 22 stig og 8 stoðsendingar og hefur verið að gera ansi sterkt tilkall í besti sjötti maður Íslandsmótsins þetta árið.
Góður heimasigur hjá Stólunum sem voru komnir með bakið ansi þétt upp við vegginn og hafa aðeins náð að klóra í bakkann með góðum desember mánuði.
BIO