Yfirlit fjölliðamóta um síðustu helgi

Það voru þrír flokkar sem tóku þátt í fjölliðamótum um síðustu helgi. Þetta voru 10. flokkur drengja sem spilaði heima í B-riðli, 9. flokkur stúlkna sem spilaði á Flúðum í A-riðli og 7. flokkur drengja sem tók þátt í D-riðilsmóti í Reykjavík.

Við byrjum á 7. flokki drengja þar sem þeir unnu D-riðilinn með tveimur sigrum og einu tapi.

Tindastóll-Ármann 38-31. Stigaskor; Guðmar-5, Hlynur-2, Ragnar- 6, Jón Arnar- 17, Víkingur-6, Hákon-2.

Tindastóll-Sindri 51-14. Stigaskor; Hákon-5, Ragnar- 12, Jón Arnar- 9, Víkingur-6, Guðmar-9, Hlynur-4, Ásgeir-4, Haukur- 2.

Tindastól- Höttur 16-22. Stigaskor; Ragnar-9, Aron-2, Hákon-3, Eysteinn-.

Þrátt fyrir tap gegn Hetti í síðasta leiknum, unnu strákarnir riðilinn á bónusstiginu.

10. flokkur drengja keppti heima í B-riðli. Oddur Benediktsson þjálfari sendi heimasíðunni eftirfarandi pistil. 

Fyrsta umferðin í tíunda flokki karla var leikin hér á Sauðárkróki helgina 20-21 október.  Leikið var í B-riðli.  Liðin ásamt Tindastól voru Stjarnan, ÍR, Breiðablik og Keflavík. Í liði Tindastóls léku Arnar, Arnar Freyr, Atli, Ágúst, Bragi, Daníel, Elvar, Hlynur, Hlöðver, Friðrik, Leó og Pálmi.

Fyrsti leikur helgarinnar var gegn liði Stjörnunar frá Garðabæ.  Tindastólsliðið byrjaði hikandi og leið ekki á löngu að Stjarnan náði 10 stiga forystu, staðan eftir fyrsta fjórðung var 9-16. Sama basl var á leikmönnum í öðrum leikhluta og varnarleikurinn var slakur og ekki náðist að nýta upplögð tækifæri sóknarlega, staðan 19-28 í hálfleik.  Í þriðja leikhluta kom góður kafli hjá heimamönnum og náðu þeir að jafna en Stjarnan gerði síðust 6 stig leikhlutans, staðan 32-38 og útlit fyrir spennandi lokamínútur. Í lokafjórðungnum náðu heimamenn aldrei að minnka muninn og endaði leikurinn 41-49.  Varnarleikur liðsins var vonbrigði og léleg nýting í afbragðs færum varð liðinu að falli í þessum fyrsta leik.

Tölfræði Tindastól: Leó 16/6fráköst/3stolnir/1stoðsending, Elvar 10/3st/1frá, Arnar Freyr 3/7frá/3stoð/2st/1varið, Hlynur 3/7frá/2stoð, Friðrik 3/2frá, Bragi 3/1frá, Pálmi 2/8frá/5stoð, Daníel 1/1frá/1stoð, Ágúst 0/3frá

Annar leikur heimamanna var gegn ÍR og ætluðu leikmenn sér að sýna mun betri leik heldur gegn Stjörnunni.  Aftur byrjuðu Tindastólsmenn illa, leikmenn ætluðu sér að gera hlutina upp eigin spýtur sem kann ekki góðri lukku að stýra, staðan eftir fyrsta fjórðung var 6-16 ÍR í vil.  Allt annað var að sjá liðið í öðrum fjórðung og skoraði liðið 20 stig í fjórðungnum, staðan 26-26.  ÍR-ingarnir voru sterkari í þriðja leikhluta og spiluðu hörkugóða vörn, staðan 32-36 fyrir lokaleikhlutann. Jafnræði var með liðunum í fjórða leikhluta en heimamenn voru öflugri á lokametrunum og skoruðu síðustu sex stig leiksins, lokatölur 48-45.

Tölfræði: Leó 16/6frá/4st/2stoð, Pálmi 12/5frá/4st/2stoð, Daníel 8/1frá, Hlynur 7/8frá/3stoð/3st, Friðrik 2/4frá/1st, Hlöðver 2/1frá, Ágúst 1/1frá, Arnar Freyr 0/10frá/2st/1stoð/1varið, Arnar 0/1st, Bragi 0/2st/1frá, Elvar 0/2frá/1st

Fyrsti leikur á sunnudeginum var gegn liði Breiðabliks frá Kópavogi.  Jafnræði var með liðunum í byrjun leiks en í stöðunni 10-10 skoruðu Blikar átta stig í röð, Arnar Freyr endaði leikhlutann á flautukörfu, staðan því 13-18 eftir fyrsta leikhluta.  Gestirnir frá Kópavogi byrjuðu einnig sterkt í öðrum leikhluta og réðu heimamenn illa við bakvörðinn Brynjar Karl og framherjann Snorra sem léku heimamenn grátt, staðan í hálfleik 22-36.  Jafnræði var með liðunum í þriðja fjórðung og erfiðllega gekk að skora hjá báðum liðum, staðan 32-46.  Ljóst var að heimamenn þyrftu spila gríðarlega vel í síðast leikhlutanum til þess að eiga möguleika á sigri.  Tindastólsmenn byrjuðu heldur betur að krafti í síðasta fjórðungnum, beittu pressu og fengu auðveldar körfur og voru að hitta úr þriggja stiga skotunum.  Eftir nokkarar mínútur í fjórða leikhluta voru heimamenn búnir að jafna, 53-53.  Friðrik fór mikinn á þeim kafla og skoraði 11 stig þar af voru 3 þriggja stiga körfur.  En Blikar héldu haus og náðu á endanum að sigra leikinn með tveimur stigum, 59-61.

Stigaskor: Friðrik 13, Arnar Freyr 11, Leó 9, Pálmi 9, Hlynur 5, Daníel 5, Elvar 5, Atli 2

Síðasti leikur heimamanna á mótinu var gegn liði Keflavíkur.  Liðin skiptust á körfum og staðan eftir fyrsta fjórðung var 14-15.  Keflvíkingar voru sterkari í öðrum leikhluta og höfðu 13 stiga forustu í hálfleik 23-36.  Gestirnir frá Keflavík komu ferskir úr hálfleiknum og juku jafnt og þétt muninn staðan eftir þrjá fjórðunga 38-60.  Það var ljóst að Keflvíkingar færu með sigur af hólmi en þeir voru staðráðnir í að spila af krafti allar 32 mínúturnar, eitthvað sem heimamenn voru ekki tilbúnir í.  Spiluðu gestirnir gríðarlega sterka vörn og gríðar snöggir upp völlin og fengu auðveld hraðupphlaupsstig.  Lokatölur 46-83.

Tölfræði: Pálmi 15/8frá/1stoð/1st, Arnar Freyr 6/3frá/1stoð/1st, Friðrik 6/2frá/1stoð/st, Elvar 5/3frá/1stoð/1st, Leó 4/7frá/2st, Daníel 4/1frá,  Ágúst 3/1frá, Arnar 3/1frá, Hlynur 0/4stoð/2frá/2st, Bragi 0/1stoð/1st, Hlöðver 0/1frá/1varið

Niðurstaðan var einn sigur og þrjú töp, þrír af fjórum leikjunum voru hörkuleikir og hefðu geta farið á hvorn vegin sem er.  Síðasti leikurinn gegn Keflavík var gríðarlega erfiður og áttum við í miklum erfiðleikum með hemja hraða leikmenn þeirra.  Varnarleikur liðsins var ekki nægilega góður alla helgina fyrir utan síðasta leikhlutann gegn Breiðablik, áttum við í erfiðleikum með að halda mótherjum okkar fyrir framan okkur.  Sóknarleikurinn var upp og ofan, þegar hann gekk vel var boltinn að ganga vel á milli manna og við vorum þolinmóðir.  Næsta mót liðsins er helgina 17-18 nóvember.

9. flokkur stúlkna tók þátt í A-riðilsmóti á Flúðum, þar sem liðið spilaði gegn Njarðvík, Keflavík, Hrunamönnum og Breiðablik. Niðurstaðan varð 2-2, sigrar gegn Njarðvík og Hrunamönnum og töp gegn Keflavík og Breiðabliki. Pistill frá Karli Jónssyni hljómar svona:

Tindastóll – Njarðvík                  39 - 37 (23-16)

Njarðvíkurliðið er sterkt og við vissum það. Því var áherslan lögð á vörnina í leiknum með von um að hún gæfi okkur svo aftur auðveldari körfur á hinum endanum. Það byrjaði þó ekkert sérstaklega, því eftir nokkrar mínútur var staðan orðin 2-8 fyrir Njarðvík. Eftir leikhlé og smá endurskipulagningu vænkaðist hagur okkar og eftir fyrsta leikhlutann var Njarðvík með forystu 10-13. Annar leikhlutinn var hins vegar frábær hjá okkur, þar sem við leyfðum Njarðvík aðeins að skora 3 stig gegn 13 stigum okkar. Staðan í hálfleik því 23-16. Þær grænklæddu bitu frá sér í þriðja leikhluta, sóknin hikstaði örlítið hjá okkur en við héldum okkur þokkalega á floti með varnarleiknum en munurinn aðeins tvö stig þegar fjórði leikhluti hófst. Um miðjan leikhlutann var munurinn eitt stig 36-35 en við skorum þá þrjú stig í röð og aukum muninn í 4 stig. Njarðvík skoraði svo síðustu körfu leiksins alveg á lokasekúndunum og við lönduðum flottum sigri 39-37.

Stigaskor: Bríet Lilja 20, Valdís Ósk 11, Jóna María 6 og Sunna 2.

Tindastóll – Keflavík       31 - 75 (11-46)

Við fórum í þennan leik með því hugarfari að hann væri verkefni sem við þyrftum að klára. Við reyndum þó eins og við gátum að halda okkur í einhverju leikskipulagi og tókst það bærilega, sérstaklega í seinni hálfleik. Keflavík hefur hins vegar mjög marga leikmenn á svipuðu kalíberi og geta dreift mínútum á mun fleiri leikmenn en önnur lið. Við þurfum að líta á Keflavíkurliðið sem tækifæri fyrir okkur að verða betri, frekar en einhverja ógnun sem við eigum að láta fara í taugarnar á okkur. Þær keflvísku spiluðu drengilega og ekkert yfir yfirburðum þeirra að kvarta, nema að við ætlum að gera betur gegn þeim næst.

Stigaskor: Bríet Lilja 17, Valdís Ósk 6, Kolbrún Ósk 4, Anna Valgerður 2 og Jóna María 2.

Tindastóll – Hrunamenn            35 – 28 (14-12)

Stelpurnar í Hrunamönnum byrjuðu á pressuvörn allan völlinn gegn okkur og við vorum smá tíma að ná tökum á leiknum vegna þess. Við vorum undir eftir fyrsta leikhlutann 7-10, en náðum að læsa vörninni í öðrum leikhluta og mjötluðum sóknina áfram og vorum yfir í hálfleik 14-12. Þriðja leikhlutann unnum við svo 13-7 og áfram var það vörnin sem var að hjálpa okkur gríðarlega mikið. Staðan við upphaf fjórða leikhluta var 27-19. Við skorum fjögur fyrstu stig síðasta leikhlutans og komumst í þægilega forystu sem við létum ekki af hendi.

Stigaskorið: Bríet Lilja 20, Valdís Ósk 9, Sunna 2, Júlía 2 og Kolbrún 2.

Tindastóll – Breiðablik   20 - 31 (10-16)

Við lögðum þennan leik upp eins og hina, með því að spila grimma vörn og láta sóknina síðan ráðast töluvert af frammistöðunni þar. Það kom hins vegar snemma í ljós að þrek okkar stúlkna var tekið að minnka, eftir mikla baráttu í hinum leikjunum og sér í lagi leiknum gegn Hrunamönnum þarna fyrr um daginn. Enda bara sjö menn til að keyra á.  Við byrjuðum þó ágætlega en Blikar slógu okkur út af laginu með mikilli baráttu og þegar þrekið tók að þverra minnkaði mótstaðan hjá okkur. Við minnkuðum þó muninn í 3 stig við lok 3. leikhluta en 6 stig í röð frá Breiðabliki í upphafi fjórða leikhluta gerði út um vonir okkar að ná að vinna leikinn. Engu að síður verð ég að taka ofan hattinn fyrir stelpunum, því þær börðust og reyndu allan leikinn, en þrekið var bara búið.

Stigaskorið: Bríet Lilja 9, Valdís Ósk 4, Sunna, Anna Valgerður og Kolbrún Ósk 2 hver og Jóna María 1.

Um næstu helgi lýkur svo fyrstu umferð fjölliðamótanna og verða það 10. flokkur stúlkna, sem keppir í B-riðli á Selfossi og 9. flokkur drengja sem keppir í D-riðli hér heima sem slá botninn í þessa fyrstu umferð.