- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Júdófélagið Pardus á Blönduósi stóð fyrir æfingabúðum í Júdó um helgina þar sem iðkendur frá Júdódeildum Tindastóls og UMF Selfoss komu í heimsókn.
Um fimmtíu júdóiðkendur og þjálfarar tóku þátt í æfingabúðunum, sem voru sambland af júdóæfingum og afþreyingu utan æfingatíma.
Fyrir iðkendur Tindastóls byrjaði helgin rétt eftir hádegi á laugardaginn með rútuferð á Blönduós. Eftir æfingu, sem stóð frá 14:00 til 15:30, bauð Pardus þátttakendum í sund þar sem hægt var að slaka á í heitu pottunum, skvettast um í sundlauginni eða dengja sér niður vatnsrennibrautirnar. Eftir skvett, svaml og sull í lauginni færðist fjörið út á leiksvæðið þar sem ærslabelgurinn og leiktækin voru óspart reynd. Eftir góða stund utan dyra var svo farið í félagsmiðstöðina Skjólið þar sem margs konar afþreying var í boði.
Dagurinn endaði svo með pítsuveislu á B&S í boði Pardusar - en þar var hraustlega tekið á áti eftir orkufrekan dag. Ekki var annað að sjá en að dagurinn hafi lukkast vel ef marka má fjörið í rútuferðinni til baka á Sauðárkrók.
Sunnudagurinn hófst svo með æfingu klukkan 10:00 um morguninn sem stóð til 11:30. Eftir æfinguna bauð Júdódeild UMF Selfoss öllum upp á pylsur og drykki í hádegisverð áður en þau lögðu af stað heim á leið suður yfir heiðar. Eftir hádegisverðinn nýttu flestir iðkendur Tindastóls sér frímiða í sund áður en haldið var til baka í Skagafjörðinn.
Júdófélagið Pardus á hrós skilið fyrir gestrisni og vel lukkaðar æfingabúðir og það er heldur ekki amalegt að fá tækifæri til að æfa með júdódeild UMF Selfoss, sem er eitt sterkasta júdófélag landsins.
Sjá má nokkrar myndir frá æfingabúðunum hér fyrir neðan.