- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Í dag var haldið afmælismót Júdósambands Íslands (JSÍ) í yngri flokkum sem er fyrir iðkendur frá ellefu til tuttugu ára. Tindastóll var með þrjá keppendur skráða til leiks en einungis einn skilaði sér á keppnisstað.
Þeir Þorgrímur Svavar Runólfsson, Steinar Óli Sigfússon og Veigar Þór Sigurðarson voru allir skráðir til leiks en vegna slæmrar færðar í morgun komumst þeir Þorgrímur Svavar og Veigar Þór ekki á mótið og urðu að sætta sig við að sitja heima.
Steinar Óli fór hins vegar suður í gær og var fulltrúi Tindastóls á afmælismótinu, sem haldið var í húsnæði Júdófélags Reykjavíkur. Hann keppti í tveimur flokkum, U18-60 þar sem hann endaði í fjórða sæti og U21-60 þar sem hann hreppti þriðja sætið. Þetta er fyrsta JSÍ mótið sem hann tekur þátt í og örugglega ekki það síðasta. Hann var að keppa við sýnu keppnisreyndari andstæðinga og efldist með hverri viðureign. Alls glímdi hann sjö glímur og náði að leggja tvo andstæðinga sína í U21 flokknum sem skilaði honum, eins og áður segir, þriðja sætinu, sem er virkilega góður árangur.
Myndirnar hér fyrir neðan eru frá mótinu og voru teknar af Sigfúsi Inga Sigfússyni.