- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Bikarmeistarar Tindastóls héldu til Akureyrar í gær þar sem þeir mættu liði Þórs í fyrsta leik sínum eftir partíið í Laugardalshöllinni. Oft mæta menn til leiks hálf timbraðir eftir stóra sigra eins og í bikar en Stólarnir byrjuðu vel gegn Þórsurum og náðu yfirhöndinni í leiknum. Þrátt fyrir að Akureyringar næðu að velgja Tindastólsmönnum undir uggum í síðari hálfleik þá héldu strákarnir haus og tryggðu sér sigur, 72-77, og eru nú í 2.–4. sæti í Dominos-deildinni eftir leiki gærkvöldsins.
Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Stólarnir ágætu forskoti, staðan 9-20 eftir m.a. tvo þrista frá Friðriki Stefáns. Lið Tindastóls mætti hálf vængbrotið til leiks en í liðið vantaði Viðar sem varð fyrir hnjaski í leiknum gegn KR og þá voru Arnar Björns og Bjöggi Ríkharðs veikir. Fyrir vikið fengu Finnbogi, Hannes, Friðrik og Helgi Margeirs drjúgan tíma, rúmar 20 mínútur hver, til að láta ljós sín skína. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 16-24 og leikurinn var á svipuðu róli í öðrum leikhluta, þar sem mikið mæddi á Hester, þannig að staðan var 30-45 í hálfleik og staðan því vænleg fyrir lið Tindastóls.
Þórsarar hittu afleitlega í fyrri hálfleik og skyttur liðsins flestar í tómi tjóni. Það var helst kaninn þeirra, Nino D'Angelo Johnson, sem eitthvað kvað að. Skyttur Stólanna voru heldur skárri framan af leik en í síðari hálfleik komu Þórsarar ákveðnari til leiks og voru fljótir að koma muninum niður í tíu stig. Þristur frá Pálma Geir minnkaði muninn enn frekar fyrir Þór en körfur frá Hannesi Inga og Garrett stoppuðu lekann fyrir Stólana og staðan 50-61 að loknum þriðja leikhluta.
Það væri synd að segja að liðin hafi verið á eldi í byrjun fjórða leikhluta. Sérstaklega voru Stólarnir þó kaldir. Sindri Davíð minnkaði muninn í fjögur stig, 57-61, en Helgi Margeirs setti einn djúpan og bætti svo tveimur stigum í sarpinn af vítalínunni og munurinn níu stig þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þórsarar komu með aðra atlögu skömmu síðar og Sindri minnkaði muninn í þrjú stig, 63-66, og skömmu síðar voru þeir nálægt því að minnka muninn í eitt stig sem hefði sennilega gefið heimamönnum byr undir báða, en D'Angelo klikkaði á troðslu og Hester jók muninn strax í kjölfarið. Hann breytti síðan stöðunni í 63-71 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og þá var mesta púðrið úr Þórsurum og Stólarnir unnu góðan sigur.
Í liði Tindastóls var Hester stigahæstur með 20 stig og hann tók átta fráköst. Pétur hitti illa í leiknum en endaði með 11 stig, 11 fráköst og átta stoðsendingar. Garrett var drjúgur með 12 stig og ágæta nýtingu, Hannes 11 og Helgi Margeirs 10. Þá átti Friðrik fínan leik með átta stig, fimm fráköst, fimm stoðsendingar, fjóra stolna og reyndar fjóra tapaða bolta líka.
Skotnýtingin fyrir utan 3ja stiga línuna var frekar döpur hjá báðum liðum; 23% (8/35) hjá Stólunum þar sem Hannes bar af með 3/6 en Axel, Helgi og Pétur sennilega ekkert kátir með nýtinguna sína. Í liði Þórs var nýtingin aðeins 15% (4/26) í 3ja stiga skotunum og Króksarinn Ingvi Rafn sennilega alveg foxillur með 0/9 nýtinguna sína en Ingvi hefur verið að spila vel fyrir Þór í vetur. Í liði Þórs var D'Angelo með 25 stig og 14 fráköst, Hilmar Smári setti 13 og Pálmi Geir 9.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima fimmtudaginn 25. janúar en þá koma Grindvíkingar í heimsókn.