- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastólsmenn héldu til Grindavíkur í gær og léku við lið heimamannaí lokaleik fjórðu umferðar Dominos-deildarinnar. Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu en heimamenn leiddu lengstum en Stólarnir voru yfir í hálfleik og náðu síðan frumkvæðinu í fjórða leikhluta. Strákarnir léku vel á lokakaflanum og tóku bæði stigin með sér norður. Lokatölur 81-88.
Jafnt var á flestum tölum fyrstu mínútur leiksins en á þeim kafla urðu heimamenn fyrir áfalli sem gerði þeim erfitt fyrir það sem eftir lifði leiks. Risinn Sigurður Þorsteins fékk dæmdar á sig þrjár villur á fystu fimm mínútunum og var kippt af velli til hvíldar. Allt voru þetta réttmætar villur og þegar Siggi kom aftur til leiks í síðari hálfleik þá var hann fljótur að bæta við villusafnið sitt og endaði á því að skila rétt rúmum 12 mínútum áður en sú fimmta kom í hús. Vegna þessa losnaði talsvert um Hester í teignum en heimamenn náðu engu að síður yfirhöndinni í fyrsta leikhluta og þá kannski helst vegna þess að Stólarnir voru gjörsamlega gerilsneyddir og goslausir á vítalínunni. Grindvíkingar komust í 23-16 en þristur frá Chris Caird lagaði stöðuna áður en leikhlutinn var úti.
Stólarnir spiluðu betur í örðum leikhluta og Caird kom gestunum yfir, 25-27, með þristi. Grindvíkingar gáfu þó ekkert eftir og komust aftur yfir. Hester kom sterkur inn undir lok fyrri hálfleiks og kom Stólunum fimm stigum yfir, 39-44, en Ólafur Ólafs setti niður glæsiþrist í þann mund sem flautað var til leikhlés. Staðan 42-44 fyrir Tindastól.
Sigurður kom aftur inn fyrir heimamenn í upphafi þriðja leikhluta og þá léku Grindvíkingar vel. Þeir náðu forystunni á ný og leiddu 56-48 um miðjan leikhlutann þegar kappinn braut á Arnari og nældi í sína fjórðu villu og var því settur í kæli. Stuttu síðar náðu Grindvíkingar níu stiga forystu en Tindastólsmenn héldu haus og nú fór Hester aftur í gang. Pétur minnkaði muninn í tvö stig með tveimur vítaskotum áður en leikhlutinn var úti og staðan 64-62 fyrir Grindavík.
Karfa frá Helga Rafni og þristur frá Caird gáfu tóninn í upphafi fjórða leikhluta og ekki batnaði ástandið hjá Grindvíkingum þegar Siggi fékk sína fimmtu villu þegar tæpar átta mínútur voru til leiksloka. Nú áttu heimamenn í miklu basli í teignum og síðan bætti ekki úr skák að Chris Caird var orðinn sjóðheitur. Næstu mínútur hengu heimamenn í Stólunum en sóknarleikur þeirra var orðinn ansi örvæntingarfullur og alls tóku þeir 16 3ja stiga skot í leikhlutanum en aðeins tvö rötuðu niður. Eftir þrist frá Degi Kára þegar tæpar sex mínútur voru eftir, og staðan 71-71, tóku Stólarnir leikinn yfir og Hester og Caird kláruðu dæmið. Staðan var 78-84 þegar rúm mínúta var eftir og fjögur vítaskot frá Arnari gulltryggðu góðan útisigur gegn einu af bestu liðum Dominos-deildarinnar.
Hester var bestur Tindastólsmanna í leiknum; skilaðði 25 stigum og 13 fráköstum en fjarvera Sigurðar auðveldaði honum talsvert leikinn. Þá átti Caird sinn besta leik í vetur og skilaði 19 flauelsmjúkum stigum. Bæði Pétur og Arnar voru ískaldir í 3ja stiga skotunum sínum, settu niður sitt hvort skotið, en Arnar endaði með 18 stig en Pétur 11, 9 fráköst og sex stoðsendingar. Björgvin átti fína innkomu og þá voru Axel og Helgi Rafn traustir. Stólarnir spiluðu ágæta vörn og þar sem heimamenn ógnuðu ekki verulega innan teigs var lykilatriði að gera skyttum þeirra erfitt fyrir og nýting heimamanna utan 3ja stiga línu var ekki glæsileg, 21% eða 8/36. Stólarnir aftur á móti voru 6/24 eða 25% þar sem Caird var sá eini sem gat talist heitur. Tindastólsmenn hirtu sjö fráköstum meira en Grindvíkingar í leiknum.
Næstkomandi fimmtudag fá Stólarnir lið Hauka í heimsókn í Síkið en Hafnfirðingar eru til alls vísir í vetur, sérstaklega eftir að þeir endurheimtu Kára Jóns sem hefur þvælst fyrir Tindastólsmönnum meira en margur.