Ísak Óli í stuttu spjalli !

(Mynd FRÍ).
(Mynd FRÍ).

 

Frjálsíþróttakappinn Ísak Óli Traustason hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir góðan árangur í fjölþrautum, og bætingar í flestum greinum þrautanna, eins og fram hefur komið í fréttum. Ísak Óli samþykkti að svara nokkrum spurningum hér á síðunni:

Hvað varð til þess, að þú yfirgafst „fjörðinn fagra“ sl. haust, og hélst suður yfir heiðar ?

Ég kláraði stúdentspróf frá FNV vorið 2015, var á vinnumarkaðnum í eitt ár, en ákvað sl. haust að skella mér í nám í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Þegar ég var nýkominn suður var mér boðið að vera með í hópi fjölþrautafólks, sem stofnaður var sem samstarfsverkefni Breiðabliks, ÍR og Ármanns. Það eru þeir Jón Sævar Þórðarson og Þráinn Hafsteinsson, sem hafa yfirumsjón með hópnum, en svo fáum við aðgengi að hinum ýmsu sérgreinaþjálfurum félaganna.  Það eru sönn forréttindi að hafa aðgengi að svona toppþjálfurum.

Áttirðu von á þeim miklu framförum, sem þú hefur sýnt á árinu ?

Ég vissi alveg að ég ætti þó nokkuð inni og tel mig enn eiga meira inni. Málið er það, að þegar ég var að æfa fyrir norðan, þá vorum við Sigurður Arnar, þjálfari minn, fyrst og fremst að einbeita okkur að hlaupum. Það vantaði mikið upp á hlaupatækni mína. Sigurður Arnar kenndi mér í raun að hlaupa.  Það hefur svo gefið mér frábæran grunn fyrir tæknigreinarnar, sem betri aðstæður eru til að æfa fyrir sunnan.

Hvað viltu segja við okkar ungu og stórefnilegu krakka heima í Skagafirði ?

Ég vil hvetja ykkur til þess að halda áfram að æfa, vera dugleg að keppa og gera eitthvað skemmtilegt með æfingahópnum, því að ef það er góð stemmning í hópnum og tilhlökkun að mæta á æfingar, þá gerast góðir hlutir, lofa ykkur því. Ég er t.d. búinn að eignast góða vini í gegnum frjálsarnar, sem ég kem til með að eiga til æviloka. Verið þolinmóð, þó þið bætið ykkur ekki á öllum mótum. Treystið þjálfaranum, því að ef þið eruð samviskusöm og mætið á allar æfingar, þá koma bætingarnar með keppnisreynslunni. Góðir hlutir gerast hægt og maður á alltaf að reyna að gera sitt besta!

Kveðjur heim í fjörð !