- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll fékk framlágt lið Snæfells í heimsókn í Síkið í kvöld og unnu stórsigur eins og vænta mátti. Stólarnir náðu strax góðri forystu og það var augljóst frá fyrstu mínútu að gestirnir voru ekki líklegir til að veita mikla mótspyrnu. Staðan í hálfleik var 49-21 og hálfgerð þolraun fyrir áhorfendur að komast í gegnum seinni hálfleikinn sem var óspennandi með öllu. Lokatölur 100-57.
Stólarnir komust í 10-2 og keyrðu upp hraðann í byrjun leiks. Þá pressuðu þeir gestina og gerðu þeim erfitt fyrir að koma með boltann upp völlinn. Björgvin spilaði hrikalega sterka vörn á Sefton Barrett, Kana þeirra Snæfellinga, sem verið hefur þeirra langöflugasti leikmaður. Nú sá hann ekki til sólar og var orðinn ævintýralega svekktur strax í öðrum leikhluta. Það segir mikið um vörnina sem spiluð var á hann að hann endaði leikinn með fjögur stig og fimm fráköst en meðal stigaskor hans fyrir leikinn í kvöld var vel yfir 20 stigum. Þar sem hann var tekinn út úr leiknum var fátt um fína drætti hjá gestunum. Þeir voru undir 26-10 eftir fyrsta leikhluta og aðeins spurning hvort Stólarnir næðu að halda einbeitingunni. Sem var nú varla raunin því liðið tapaði 24 boltum í leiknum, þremur fleiri en lið Snæfells! En það var auðvitað verið að reyna erfiðar sendingar og menn voru kærulausir á boltanum. Staðan í hálfleik var 49-21.
Eitthvað hefur Ingi Þór náð að blása smá eldmóði í sína menn í hálfleik því þeir komu beittari til leiks – það var í það minnsta ekki sami uppgjafarsvipurinn á mönnum. Þeir náðu að halda í við Stólana en munurinn þó yfirleitt 25-30 stig. Hannes Ingi setti niður tvo þrista og Helgi Margeirs einn og munurinn skreið yfir 30 stigin undir lok þriðja leikhluta. Mesti móðurinn var runninn af gestunum í fjórða leikhluta og bæði lið fóru að spara byrjunarliðsmennina. Helgi Margeirs setti niður þrjá þrista í þremur skotum á rúmlega tveggja mínútna kafla og það kveikti vel í stúkunni. Þá vakti Svabbi mikla lukku þegar hann, örugg vítaskyttan, misnotaði þrjú vítaskot í röð en var fagnað ákaflega þegar hann setti það fjórða niður.
Þetta var að sjálfsögðu góður sigur hjá liði Tindastóls sem er nú með átta stig eftir sex leiki í Dominos-deildinni. Þessi leikur segir hinsvegar lítið um styrk liðsins en vörnin var sterk í fyrri hálfleik. Mamadou Samb, sem fékk þungan dóm hjá spekingunum í Dominos-kvöldi eftir síðustu umferð, var stigahæstur með 24 stig og átta fráköst, en þolinmæðin gagnvart honum í stúkunni virðist minnka með hverjum leiknum og ljóst að margir geta ekki beðið eftir að sjá kappann hverfa á braut. Caird var með 16 stig og sjö fráköst en síðan voru Björgvin og Helgi Margeirs með 12 stig hvor og Björgvin með flest fráköst eða 10 stykki. Pétur var með tíu stig í leiknum og tíu stoðsendingar.
Í liði gestanna var Viktor Alexandersson stigahæstur með 11 stig og næstur honum kom Maciej Klimaszewski með 10 stig. Lið Tindastóls tók 45 fráköst í leiknum en Snæfellingar 27.
Birt með góðfúslegu leyfi feykir.is