- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Grindavík mættust í Síkinu í gærkvöldi í Dominos-deildinni í körfubolta. Reiknað var með spennandi leik og sú varð raunin en það voru Tindastólsmenn sem voru sprækari og spiluðu ágæta vörn allan leikinn en það var helst Nathan Bullock sem reyndist verulega erfiður viðureignar í liði Grindavíkur. Stólarnir náðu yfirhöndinni undir lok annars leikhluta og héldu forystunni allt til loka. Niðurstaðan góður sigur, 94-82.
Tindastóll hafði leyst Brandon Garrett undan samningi í vikunni og léku því án hans í gær. Það virtist ætla að koma í bakið á Stólunum því Hester lenti í slæmum villuvandræðum snemma leiks og spilaði aðeins níu mínútur fyrstu þrjá fjórðungana í leiknum. En leikmönnum Tindastóls er ekki alls varnað og þegar stíga þarf upp þá náttúrulega stíga menn bara upp.
Leikur liðanna var ansi stirðbusalegur fyrstu mínúturnar og sérstaklega voru Stólarnir duglegir við að senda boltann í hendurnar á mótherjunum. Grindvíkingar komust í 4-10 en með innkomu Arnars og Viðars, sem báðir hvíldu í síðasta leik vegna meiðsla og voru ekki í byrjunarliði Tindastóls í gærkvöldi, þá vænkaðist hagur heimamanna. Arnar setti niður þrist í sína fyrsta skoti, 9-11, og þá fylgdu átta stig frá Viðari og staðan breyttist í 17-13. Hester fékk sína aðra villu skömmu síðar þegar hann braut klaufalega á Bullock í 3ja stiga skoti og var því settur í kælingu.
Staðan var 17-16 að loknum fyrsta leikhluta og í upphafi annars leikhluta byrjaði Helgi Margeirs á því að verja skot og setti síðan niður þrist. Eftir það náðu gestirnir tökum á leiknum og komust í 20-25. Hannes sveiflaði niður þristi og lagaði stöðuna en þristur frá Bullock og tvistur frá Degi Kár komu Grindvíkingum í 23-30 þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Þá þótti Israel Martin rétt að kynna Hester aftur til sögunnar en á næstu 25 sekúndum fékk hann dæmda á sig ruðningsvillu og síðan braut hann á Sigurði Þorsteins í næstu sókn Grindvíkinga og kappinn því með fjórar villur og ekki 15 mínútur liðnar af leiknum. Hann var umsvifalaust kallaður til bekkjarsetu og kom ekki meira við sögu fyrr en í fjórða leikhluta. Sennilega hefur farið um flesta heimamenn við þessa þróun mála. Gestirnir komust í 27-35 en síðustu fimm mínútur annars leikhluta gekk hvorki né rak hjá Grindvíkingum sem virtust vera hálf ráðalausir í sínum sóknar- og varnarleik þegar Hester var ekki lengur á vellinum. Pétur og Arnar duttu nú í stuð og Pétur jafnaði leikinn, 36-36, af vítalínunni og þeir félagar sáu um stigaskorið þar til Helgi Rafn setti flautublak niður og staðan 44-38 í hálfleik.
Óli Óla gerði fyrstu körfu síðari hálfleiks en Arnar, Hannes og Axel svöruðu og komu Stólunum rækilega í bílstjórasætið og ellefu stigum yfir, 51-40. Næstu mínúturnar var munurinn yfirleitt 6-10 stig og Stólarnir virtust alltaf eiga svör við leik gestanna. Ingvi Þór Guðmunds minnkaði muninn í 60-57 en Viðar svaraði með þristi og Helgi Margeirs bætti um betur stuttu síðar og að loknum þriðja leikhluta var staðan 67-60.
Áhorfendur hafa sjálfsagt beðið eftir að gestirnir, sem virtust á köflum hálf kraftlausir í sínum leik, hristu af sér slenið á lokamínútunum. Stólarnir gátu nú aftur á móti sett Hester inn á, úthvíldan og fókuseraðan, og hann spilaði síðustu 10 mínúturnar glimrandi vel með fimmtu villuna hangandi yfir sér. Eftir þriggja mínútna leik var staðan 71-69 en Hester svaraði fyrir Stólana og leikurinn algjörlega í járnum á þessum kafla. Jóhann Árni Ólafsson minnkaði muninn í eitt stig þegar rúmar fimm mínútur voru eftir en karfa frá Hester og þristur frá Arnari virtust slökkva mesta neistann í Grindvíkingum. Staðan 79-73. Aftur var það Jóhann sem kom gestunum í séns, 84-80, þegar þrjár mínútur voru eftir en enn á ný kom lagleg karfa frá Hester og síðan þristur frá Pétri og þá var Grindvíkingum öllum lokið. Lokatölur sem fyrr segir 94-82.
Þó leikurinn hafi ekki verið áferðarfallegur á löngum köflum þá var gaman að sjá lið Tindastóls leysa þetta snúna verkefni vel af hendi. Þeir létu boltann yfirleitt ganga vel í sókninni og náðu að skapa sér ágæt færi. Grindvíkingar, með sinn öfluga nýja Kana, voru sýnd veiði en ekki gefin en Stólarnir unnu fimmta leik sinn í röð í gærkvöldi með sannri liðsframmistöðu. Þrátt fyrir að spila aðeins 19 mínútur endaði Hester stigahæstur með 20 stig og 5 fráköst og hann sýndi oft lipra sóknartakta í viðureignum sínum við Bullock en Hester er með flottar hreyfingar og eldsnarpur. Pétur var bestur í liði Stólanna með 23 framlagspunkta en hann gerði 19 stig, tók sex fráköst og átti sjö stoðsendingar. Þrátt fyrir að spila meiddur skilaði Arnar 18 stigum og þá var ánægjulegt að sjá Viðar koma sterkt inn og skila ellefu stigum.
Í liði Grindvíkinga var Nathan Bullock yfirburðamaður með 33 stig og 16 fráköst en hann var með 44 framlagspunkta. Jóhann Ólafs gerði 12 stig en ekki fóru fleiri leikmenn gestanna yfir tíu stiga múrinn í þessum leik sem verður að teljast frekar óvenjulegt fyrir þá Suðurnesjapilta.
Næsti leikur Tindastóls er í Hafnarfirði þegar liðið mætir Haukum sem eiga harma að hefna eftir að Stólarnir skutluðu þeim úr leik í undanúrslitum Maltbikarsins. Leikið verður í Schenkerhöllinni föstudaginn 2. febrúar kl. 19:15.