- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Þór Akureyri áttust við í fjörugum og skemmtilegum körfuboltaleik í Síkinu í kvöld. Hávær sveit hressra Þórsara fylgdi sínum mönnum og voru kampakátir fyrstu mínúturnar en Stólarnir náðu fljótlega yfirhöndinni í leiknum og þrátt fyrir ágætan leik gestanna voru þeir aldrei nálægt því að koma heimamönnum úr jafnvægi. Eftir fyrri viðureign norðanliðanna eru það því Króksararnir sem hafa montréttinn. Lokatölur 92-70 og leikur Tindastóls uppörvandi.
Það var Sindri Davíðsson sem gerði fyrstu körfu leiksins og kappinn var sjóðheitur í leiknum, endaði stigahæstur í Síkinu (23 stig) og sýndi góða takta. Hester jafnaði og næstu mínútur var stál í stál og leikurinn hraður. Arnar, Pétur og Axel settu þrjá þrista á einni og sömu mínútunni um miðjan fyrsta leikhluta og Stólarnir náðu í framhaldinu að búa til sæmilegt forskot sem Þórsarar reyndu að brúa en náðu í raun aldrei. Björgvin gerði tvær laglegar körfur og kom Stólunum í 24-12 en Marques Oliver, Sindri og Ingvi Rafn sáu til þess að minnka muninn aðeins áður en leikhlutinn var úti. Yfirleitt munaði þetta 7-12 stigum á liðunum framan af öðrum leikhluta en hagur Stólanna vænkaðist enn frekar þegar Pétur fór að finna Chris Caird á fjölinni sinni. Átta stig í röð frá Caird breyttu stöðunni úr 39-31 í 47-34 og þannig var staðan í leikhléi.
Góður kani Þórsara, Oliver, var skeinuhættur fyrir utan 3ja stiga línuna og hann hóf þriðja leikhluta með þristi. Pétur svaraði í sömu mynt og skömmu síðar lagfærði Arnar stöðuna aftur með þristi eftir að Sindri hafði lagt boltann í körfu Stólanna. Arnar var að nýta skotin sín ansi vel. Eftir þriggja mínútna kafla um miðjan leikhlutann þar sem hvorugt liðið skoraði setti Friðrik Stefáns óvænt niður þrist og náðu Stólarnir þá 16 stiga forystu og ljóst að það var á brattann að sækja hjá Þórsurum. Caird setti niður síðustu stigin í leikhlutanum, henti niður þristi og Oliver braut á honum í skotinu svo Cairdarinn bætti vítaskotinu í sarpinn. Staðan 72-55.
Þórsarar löfðu inni í leiknum framan af fjórða leikhluta en Stólarnir sprungu út um hann miðjan þegar Viðar skellti í þrist og síðan komu tvær troðslur frá Hester og þristur frá Axel. Seinni troðsla Hesters var geggjið, fullkomið allí-úpp eftir magnaða sendingu frá Arnari og fjögur hundruð áhorfendur í Síkinu tókust á loft – mínus nokkrir Þórsarar. Örfáum sekúndum síðar reyndu Stólarnir sama hlutinn en sendingin var ekki alveg nógu góð, en það kom ekki að sök, sigurinn var í höfn og báðir þjálfarar settu óþreytta menn á völlinn síðustu mínúturnar. Það dugði Helga Margeirs til að setja einn silkimjúkan fljúgandi þrist í netið og eiga þar með lokaorðið.
Lið Þórs stóð lengi í Stólunum en það var annar bragur á liði Tindastóls í kvöld en í síðustu leikjum. Vörnin lengstum til fyrirmyndar, sóknin fjölbreyttari og að þessu sinni unnu Stólarnir alla leikhlutana. Þórsurum var spáð neðsta sætinu í deildinni og þar með falli en þeir eiga eftir að flækjast fyrir mörgum liðum ef þeir ná upp stemningu og góðu framlagi frá lykilmönnum. Breiddin gæti orðið þeirra Akkilesarhæll en heimavöllurinn vígi ef stuðningsmenn liðsins halda þessum dampi sem var á þeim í kvöld.
Pétur var bestur Tindastólsmanna í kvöld þó skotnýtingin væri kannski ekki súper. Hann skilaði 17 stigum, tók flest fráköst Tindastólsmanna eða 11, átti sex stoðsendingar og stal þremur boltum. Stigahæstur var Arnar með 20 stig, Hester var með 18 og Caird 14. Tíu leikmenn Tindastóls gerðu stig í kvöld.
Næsti leikur er meiri prófraun fyrir liðið en þá fara strákarnir í Mustad-höllina í Grindavík þar sem sterkt lið heimamanna tekur á móti þeim. Áfram Tindastóll!