- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Síðasta umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta var leikin sl. fimmtudagskvöld og luku Tindastólsmenn keppni með góðum sigri gegn Stjörnunni. Líkt og oft áður í vetur átti landsliðskappinn og leikstjórnandi Tindastóls, Pétur Rúnar Birgisson, góðan leik líkt og var í hinum ágæta skemmtiþætti, Dominos-kvöldi á Stöð2Sport, valinn í úrvalslið Dominos-deildarinnar í seinni umferð deildarkeppninnar.
Samspil þeirra Péturs og Sigtryggs Arnars Björnssonar sætti nokkurri gagnrýni hjá spekingum þáttarins framan af tímabili eða á meðan að Stólarnir leituðu að jafnvægi í leik sínum. Þó einn spekingur þrjóskist við að gagnrýna þennan fína dúett þá hafa flestir komist á þá skoðun að um sé að ræða eitt sterkasta tvíeyki íslenska körfuboltans, enda báðir frábærir leikmenn þó ólíkir séu.
Sigtryggur Arnar hefur glímt við meiðsli í vetur og misst af mörgum leikjum nú seinni part tímabils. Hann var oftar en ekki stigahæstur Stólanna framan af vetri og Pétur því ekki jafn áberandi í stigaskorinu. Í fjarveru Sigtryggs Arnars hefur Pétur hins vegar farið fyrir sínum mönnum. Í umsögn spekinga Dominos-kvölds um Pétur segir: „Pétur Rúnar hefur átt frábært tímabil með Tindastól og stýrt liðinu virkilega vel. Hann þurfti að taka leiðtogahlutverkið meira á herðar sér eftir að Sigtryggur Arnar Björnsson meiddist og gerði það vel. Leikstjórnandinn ungi er með 15,1 stig að meðaltali í leik í vetur, 5,5 fráköst og 6,5 stoðsendingar. Hann verður í framlínunni þegar Stólarnir taka á móti Grindavík í 8-liða úrslitum deildarinnar.“
Fram kom í þættinum að Pétur hefur sjö sinnum verið valinn í lið umferðarinnar í vetur. Aðrir sem skipuðu úrvalsliðið voru Kári Jóns í Haukum, Ryan Taylor í ÍR, Kristófer Acox úr KR og Hlynur Bærings í Stjörnunni. Feykir óskar Pétri til hamingju með viðurkenninguna.