- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Hann var kaflaskiptur leikurinn sem Tindastólsmenn buðu upp á í Síkinu í kvöld þegar Þórsarar frá Þorlákshöfn mættu í heimsókn í 32 liða úrslitum Maltbikarsins. Heimamenn höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik og spiluðu þá glimrandi körfubolta en það var fátt um fína drætti í síðari hálfleik. Góð frammistaða gestanna síðustu 15 mínútur leiksins dugði þó ekki til að ná í skottið á Stólunum sem unnu í raun ansi öruggan sigur. Lokatölur 84-76.
Lið Tindastóls keyrði yfir Þórsara í byrjun leiks og gaman að sjá til strákanna því nú voru þeir lið – allir skiluðu fínum leik. Arnar og Viðar gáfu tóninn með sitt hvorum þristinum og síðan léku strákarnir við hvern sinn fingur. Björgvin kom sprækur inn og með mikinn kraft og þegar átta mínútur voru liðnar var staðan 27-11 og síðan 29-15 þegar fyrsta leikhluta lauk. Stólarnir héldu áfram með veisluna í öðrum leikhluta og eftir 14 mínútur var staðan orðin 40-20. Þórsarar héldu í horfinu og þá sérstaklega fyrir góðan leik hjá Adam Ásgeirssyni sem var þeirra bestur í kvöld og naut þess kannski að varnarmenn Stólanna virtust ekki verulega uppteknir af því að passa hann. Pétur kom Stólunum í 52-27 með þristi þegar mínúta var til leikhlés en Jesse Pellot-Rosa lagaði stöðuna fyrir Þór. Staðan 52-29 í hálfleik.
Eitthvað virtist leikhléið hafa farið illa í liðin því lítið gekk að skora í byrjun þriðja leikhluta og kannski fékk það aðeins á leikmenn að Jesse Pellot-Rosa meiddist og varð að yfirgefa völlinn eftir aðeins mínútuleik. Lið Tindastóls komst síðan yfir 57-31 þegar 23:34 voru liðnar af leiknum en þá náðu Þórsarar upp góðri vörn og í kjölfarið datt allur taktur úr Stólunum bæði í sókn og vörn. Ýmist skoruðu gestirnir góða körfu eða dómarar leiksins dæmdu villur á Stólana og gestirnir hófu því að saxa á forskot heimamanna. Stólarnir læddu inn einni og einni körfu þannig að þurrkurinn var ekki jafn slæmur og gegnum liði ÍR á dögunum, en áhyggjuefni engu að síður að sjá liðið ströggla með þessum hætti. Staðan var 68-51 þegar fjórði leikhluti hófst.
Fjórði leikhluti var líkur þeim þriðja og þrátt fyrir að lítið gengi upp hjá heimamönnum þá þurftu gestirnir hálfgert kraftaverk til að vinna upp þetta góða forskot sem Stólarnir höfðu búið til í fyrri hálfleik. Adam setti niður þrist þegar um fjórar mínútur voru eftir og kom muninum niður í tíu stig en karfa frá Viðari og þristur frá Arnari breyttu stöðunni í 81-66 þegar tæpar 90 sekúndur voru eftir og sigurinn í höfn. Þessar síðustu sekúndur unnu gestirnir 10-3 þannig að það er ýmislegt sem getur gerst í körfubolta á skömmum tíma.
Niðurstaðan því góður sigur og Stólarnir tryggðu sig inn í 16 liða úrslit Maltbikarsins. Hester var bestur heimamanna með 21 stig og níu fráköst en bras var á kappanum í sókninni eftir að Pellot-Rosa meiddist. Arnar var góður, þó sérstaklega í fyrri hálfleik, og setti niður 16 stig og hirti sex fráköst. Caird skilaði 15 stigum en á enn eftir að finna fjölina sína og þá var Pétur með ellefu stig og sjö stoðsendingar. Stólarnir fengu helmingi fleiri villur dæmdar á sig en lið Þórs og fannst nú mörgum áhorfandanum nóg um misskiptinguna. Það voru þó engir byrjendur með flauturnar í kvöld, Leifur, Röggi og Sigmmi, og eflaust hafa þeir dæmt af sanngirni og fullkomnun.
Næsti leikur Tindastóls er hér í Síkinu á fimmtudagskvöld en þá kemur lið Þórs frá Akureyri í heimsókn.