- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Fyrsti leikurinn í einvígi Tindastóls og Grindavíkur fór fram í Síkinu í gærkvöldi og reyndist æsispennandi. Stemningin var mögnuð frá fyrstu mínútu og jókst með hverri mínútunni sem leið. Stólunum tókst að jafna skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma með ótrúlegri blakkörfu Arnars og í framlengingu reyndust heimamenn sterkari og sigruðu að lokum 96–92 og náðu því yfirhöndinni í rimmu liðanna.
Tindastólsmenn fóru vel af stað og Ólafur Ólafs bauð Sigtrygg Arnar velkominn til leiks eftir meiðslahvíld með því að brjóta óíþróttamannslega á honum í 3ja stiga skoti. Stólarnir komust í 5-0 og 9-4 en síðan jafnaðist leikurinn. Bullock fór vel af stað fyrir gestina en hann og Siggi Þorsteins fóru fyrir Grindvíkingum ásamt Degi Kár sem setti niður nokkra risa þrista í leiknum. Stólarnir voru yfir 22-19 að loknum fyrsta leikhluta. Baráttan hélt áfram í öðrum leikhluta en Tindastólsmenn náðu góðu forskoti, 36-25, eftir tvo þrista frá Arnari og Pétur setti einn þar á milli. Gestirnir stigu þá upp og klóruðu sig inn í leikinn og mistök Stólanna gáfu Ólafi Ólafs tvær körfur á stuttum tíma og staðan orðin 40-38. Þristur frá Viðari kom Stólunum í 43-38 þegar mínúta var til leikhlés en nokkur slæm mistök Stólanna urðu til þess að Grindvíkingar komust yfir í fyrsta sinn í leiknum með körfu á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks en þá stal Ingvi Guðmunds boltanum af kærulausum Davenport. Staðan 43-44 í hálfleik og Israel Martin ekki sáttur.
Bullock og Dagur Kár gerðu fyrstu körfur þriðja leikhluta og Grindvíkingar náðu undirtökunum í leiknum. Stólarnir svöruðu reyndar með þremur laglegum körfum frá Hester en gestirnir svöruðu að bragði og þeir voru yfirleitt þetta fjórum til sjö stigum yfir út leikhlutann. Það virtist á kafla sem sagan ætlaði að endurtaka sig frá í fyrra þegar Keflvíkingar báru sigurorð af Stólunum í fyrsta leik úrslitakeppninnar hér í Síkinu, þá virtust taugar heimamanna ekki þola álagið og fáir sem fundu sig. Nú dró Pétur vagninn í gegnum erfiðan kafla í þriðja leikhluta og hélt Stólunum inni í leiknum með nokkrum mikilvægum körfum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 56-61.
Stuðningsmannalið beggja liða fóru mikinn í fjórða leikhluta og æsingurinn upp úr öllu valdi. Gestirnir voru farnir að gera sér vonir um að krækja í sigur en heimamenn keyrðu sína menn áfram, enda á aldrei að gefast upp þótt á móti blási! Siggi Þorsteins kom gestunum í góða stöðu, 60-68, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum en Stólarnir svöruðu með körfu frá Hester og þristi frá Helga Margeirs. Björgvin kom inn í lið Stólanna með mikla baráttu á báðum endum vallarins og í stöðunni 67-70 kom mikilvægur kafli þar sem Arnar fékk dæmda á sig sóknarvillu, Ólafur Ólafs klikkaði á þristi og Hester varði skot frá Ingva. Stólarnir fóru í sókn og Helgi klikkaði á þristi, Pétur tók sóknarfrákast, Arnar klikkaði á þristi og Björgvin tók sóknarfrákast, hann klikkaði á skotinu en tók aftur sóknarfrákast og sendi á Pétur sem fann Arnar sem skolaði niður þristi! Allt jafnt – staðan 70–70, fjórar mínútur eftir og flestir gargandi vitlausir á pöllunum og komnir upp á tábergið.
Bullock kom gestunum yfir en þrjár körfur frá Hester, sem átti magnaðan leik, fylgdu í kjölfarið og sú þriðja kom eftir að hann hafði stolið boltanum og að sjálfsögðu troðið með tilþrifum. Dagur Kár svarði með þristi, Arnar setti niður eitt víti af tveimur og Dagur Kár setti aftur þrist og staðan orðin 77-78. Aftur jafnaði Arnar en Dagur Kár setti niður þrist eftir að Siggi Þorsteins náði sóknarfrákasti. Þetta var hrikalegt – 19 sekúndur eftir, Stólarnir þurftu þrjú stig og Martin tók leikhlé. Dagur Kár braut á Pétri um leið og boltinn kom í leik og Pétur setti fyrra skotið niður. Hann klikkaði á síðara skotinu en í stað þess að Grindvíkingar næðu frákastinu þá var Nesi mættur á svæðið, tók frákastið, sendi út á Helga Margeirs sem gestirnir lokuðu umsvifalaust á þannig að hann fann Hannes í vinstra horniu. Hannes var í góðu skotfæri en hafði ekki hitt vel í leiknum. Þegar hann tók skotið stóð Arnar við þriggja stiga línuna en hann spratt af stað og þegar boltann small á hringnum og boppaði upp í loftið kom Arnar á fljúgandi siglingu, stökk hæð sína í töfrandi Tindastólsbúningnum og blakaði boltanum í spjaldið og niður. Argh! Allt jafnt, 81-81, en Grindvíkingar áttu enn séns. Þeir náðu ágætri sókn, eftir að hafa tekið leikhlé, en Jóhann Árni klikkaði á opnu 3ja stiga skoti og því var framlengt.
Bæði lið voru komin í bullandi villuvandræði á þessum kafla, Axel Kára reyndar sá eini sem kominn var með fimm villur en í liði Stólanna voru Helgi Viggós og Arnar með fjórar villur. Í liði Grindvíkinga var staðan erfið því Dagur Kár og Ingvi voru með fjórar villur en það sem var kannski verra; Bullock og Siggi Þorsteins voru báðir með fjórar og þetta nýttu Stólarnir sér í framlengingunni. Nú var það Arnar sem tók við hlutverki leikstjórnandans af Pétri og hvað eftir annað náði hann að finna Hester, sem Bullock og Siggi gátu illa beitt sér gegn, eða Arnar náði sjálfur skoti. Nú voru það Stólarnir sem voru skrefinu á undan. Ekki voru þó gestirnir á því að gefast upp og Ingvi Guðmunds jafnaði leikinn, 92-92, með fyrstu 3ja stiga körfu sinni í níu tilraunum. Bæði lið nýttu ekki næstu sóknir sínar en þristur frá Hester þegar 30 sekúndur voru til leiksloka, eftir langa og stranga sókn, fór langt með tryggja sigurinn í leiknum. Grindvíkingar réðu ráðum sínum og Jóhann Árni var nálægt því að minnka muninn en Hester hirti frákastið og Ólafur Ólafs braut á Arnari sem setti niður annað vítið sitt og gulltryggði sigur Tindastóls þegar 10 sekúndur voru eftir.
Sigur Tindastóls var mikilvægur og hafðist með mikilli baráttu. Hester skilaði 33 stigum og níu fráköstum, Pétur var með 18 stig, ellefu fráköst og sjö stoðsendingar. Arnar Björns virtist frekar ryðgaður framan af leik eftir að hafa lítið spilað síðustu tvo mánuði en hann lét heldur betur til sín taka á lokakafla leiksins og endaði með 24 stig og sex fráköst. Aðrir leikmenn náðu sér ekki á strik í stigaskori en varnarleikurinn og baráttan var til fyrirmyndar. Dagur Kár var með 26 stig fyrir Grindavík og Bullock 25 en bestur í þeirra liði var Siggi Þorsteins með 19 stig og 14 fráköst.
Það er næsta víst að viðureignir liðanna eiga eftir að verða æsispennandi en lið Grindvíkinga er öflugt. Stólarnir virðast hins vegar vel stemmdir og reynslunni ríkari. Næsti leikur verður í Grindavík næstkomandi þriðjudag kl. 19:15. Áfram Tindastóll!