- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Tindastóll og Valur mættust á Hlíðarenda í kvöld í leik sem lið Tindastóls vann með herkjum. Leikurinn, sem átti að hefjast kl. 19:15, var færður fram til kl. 18:00 en því miður þá hóf Tindastólsliðið varla leik fyrr en einmitt kl. 19:15. Það dugði þó til sigurs því Stólarnir notuðu fjórða leikhlutann vel að þessu sinni. Lokatölur 69-73 í leik þar sem Hester var maðurinn.
Liði Vals er spáð falli þannig að líkt og lið ÍR á dögunum höfðu þeir allt að vinna í kvöld. Það var aftur á móti eins og Stólarnir hefðu hreinlega gleymt því hvernig á að spila körfubolta þegar korter var eftir af leiknum gegn ÍR um daginn og þeir héldu áfram í þessum sama vonlausa gír gegn Völsurum. Valsmenn tóku strax forystuna, komust í 8-0, eftir að hver sóknin eftir aðra endaði með hlægilegum vondu skoti hjá Stólunum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-9. Tindastólsmenn virtust þó ætla að hrista í sig smá baráttuanda í byrjun annars leikhluta og minnkuðu muninn fljótlega í þrjú stig eftir þrist frá Axel og körfu frá Hester. Valsmenn voru þó hvergi bangnir og Austin Magnus Bracey svaraði fyrir heimamenn. Sigtryggur Arnar minnkaði muninn í tvö stig, 27-25, um miðjan annan leikhluta en þá duttu Stólarnir aftur úr gír og Valsarar náðu 11-1 kafla. Hester, sem var nánast eini ljósi punkturinn í leik Stólanna, lagaði stöðuna aðeins fyrir hlé, 38-28.
Sóknarleikur Tindastóls liðkaðist heldur í þriðja leikhluta en vörnin hrökk ekki í gang. Valsmenn svöruðu að bragði flestum körfum Stólanna og þetta mótlæti virtist setja gestina dálítið út af laginu. Það var ekki að hjálpa að Pétri var gjörsamlega fyrirmunað að skora og sömuleiðis gekk lítið hjá Caird og Arnari. Áfram héldu skotin að smella á hringnum og Valsarar virtust hreinlega ætla að stinga af. Þeir komust 17 stigum yfir, 61-44, þegar þrettán mínútur voru til leiksloka en þá loks fóru skotin að rata betur hjá Stólunum og fimm stig frá Arnari og fimm frá Hester kveiktu neistann hjá Stólunum fyrir fjórða leikhluta. Staðan 64-54.
Stólarnir skelltu í lás í vörninni í fjórða leikhluta, þeir voru snöggir að refsa liði Vals, og gerðu fyrstu níu stigin og skyndilega munaði aðeins einu stigi. Næstu þrjár og hálfa mínútuna gerðu liðin sitt hvora körfuna og það var loks þegar rúmar tvær og hálf mínúta var eftir að Axel Kára fékk boltann dauðafrír fyrir utan 3ja stiga línu og setti einn silkimjúkan niður og kom þar með Stólunum yfir í fyrsta skipti í leiknum. Staðan 66-68. Vörn Stólanna sem fyrr sterk en nú hrykti verulega í Valsliðinu sem fór illa með nokkur sæmilega færi á þessum kafla. Axel bætti við öðrum þristi mínútu síðar og jók muninn í fimm stig. Valsarar svöruðu loks með þristi og í næstu sókn tók Pétur tíunda þriggja stiga skot sitt í leiknum en líkt og með hin fyrri, þá geigaði það. Það kom ekki að sök því Hester gerði lokakörfu leiksins þegar um 15 sekúndur lifðu og Stólarnir gátu fagnað fyrsta sigrinum í vetur.
Stólarnir biðu lengi eftir því að kviknaði á mannskapnum í kvöld og það var í raun Hester sem dró vagninn, tók 13 fráköst og gerði 31 stig. Arnar var með 15 stig og sjö fráköst og Axel var með tíu stig og átta fráköst. Pétri gekk eiginlega ævintýralega illa með skotin sín en hann setti niður tvö stig í 17 skotum og bæði vítin hans fóru forgörðum líka. Sem betur fer var hann með níu stoðsendingar og þá átti hann fína spretti í vörninni. Caird var líka í tómum vandræðum með skotin sín, var 1 af 8, en þetta hlýtur að smella hjá strákunum fyrr en síðar. Björgvin Hafþór stóð vel fyrir sínu með þrjú fráköst og níu stig á sínum fáu mínútum. Aðeins sex leikmenn komust á stigatöfluna í kvöld hjá Stólunum og nýtingin í 3ja stiga skotum var rétt rúm 20%, sjö niður í 31 tilraun.
Lið Vals spilaði vel fyrsta hálftímann í kvöld en brotnaði við mótlætið í fjórða leikhluta, gerði þá aðeins fimm stig.
Næsti leikur Tindastóls er í Síkinu á sunnudaginn en þá kemur lið Þórs frá Þorlákshöfn í heimsókn í Maltbikarnum. Þá þurfa Stólarnir að spila miklu betur en í kvöld. Næsti leikur í Dominos-deildinni er síðan gegn hinum Þórsurunum, frá Akureyri, og fer sá leikur fram fimmtudaginn 19. október.