- Forsíða
- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, margfaldur Íslandsmeistari, þrautreyndur landsliðsmaður og atvinnumaður erlendis til margra ára, hefur skrifað undir hjá KKD Tindastóls. Enginn vafi er á að Þórir verði liðinu mikil lyftistöng í því verðuga verkefni að verja titilinn.
Þórir hefur síðustu tvö árin spilað í hollenska og spænska körfuboltanum en þar áður í fjögur ár með Nebraska Lincoln háskólanum í Big 10 riðli bandaríska háskólaboltans. Þar áður lék hann með KR og vann með þeim fimm stóra titla áður en hann hélt utan. Þórir á 23 landsleiki að baki þrátt fyrir ungan aldur en hann er fæddur árið 1998.
„Tindastóll hefur lengi verið spennandi kostur fyrir bestu körfuboltamenn landsins. Þórir er svo sannarlega nú þegar orðinn einn af þeim og ég er hreykinn af hans einlæga áhuga á að koma til okkar. Hann setur samt þann fyrirvara í samningum okkar að ef honum opnast á næstu vikum tækifæri til þess að stíga á ennþá stærra svið erlendis verði honum gert kleift að þiggja slíkt boð án nokkurra eftirmála. Við samþykktum það með ánægju enda viljum við veg ungra og efnilegra leikmanna okkar alltaf sem mestan og Þórir er þar engin undantekning,“ segir Dagur Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
„Þórir er gríðarlega dýrmætur liðsauki fyrir okkur. Hann smellpassar inn í þennan hraða leik sem við viljum halda áfram að þróa enda ekki kallaður „Tóti túrbó“ að ástæðulausu. Hann er stöðugt ógnandi og ótrúlega drjúgur í vinnu fyrir liðið með góðum staðsetningum og sendingum á samherjana. Síðast en ekki síst er Þórir toppdrengur, góður karakter bæði innan vallar og utan. Það skiptir miklu máli,“ segir Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls.
„Ég er ákaflega hreykinn af því tækifæri sem mér býðst að ganga til liðs við Tindastól. Ég hef auðvitað fylgst með þessari miklu uppbyggingu og sterku umgjörð sem orðið hefur til utan um körfuboltann og ekki bara í meistaraflokki karla heldur líka í kvennaboltanum og öllu þessu frábæra unglingastarfi. Ég hlakka mikið til að vinna með strákunum sem nældu sér í Íslandsmeistaratitilinn og auðvitað líka með Pavel sem hefur nú þegar sýnt frábæra takta sem leiðtogi og þjálfari liðsins. Markmiðið er bæði einfalt og stórt: Að verja titilinn!,“ segir Þórir